Allt gert til þess að bjarga mönnunum

Úr hlíðum K2.
Úr hlíðum K2. AFP

Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra ræddi síðdegis við Makhdoom Shah Mahmood Qureshi, utanríkisráðherra Pakistans, vegna leitarinnar að fjallgöngumanninum John Snorra Sigurjónssyni og samferðamönnum hans.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá utanríkisráðuneytinu.

Qureshi upplýsti Guðlaug Þór um gang leitarinnar og tjáði honum að allt yrði gert til að bjarga mönnunum. Guðlaugur Þór þakkaði Qureshi fyrir framgöngu pakistanskra stjórnvalda og voru þeir einhuga um að reyna skyldi til þrautar að finna mennina.

Ekkert hefur spurst til Johns Snorra og samferðamanna hans í rúman einn og hálfan sólarhring. Þeir voru á leið upp á topp K2, sem er á landamærum Kína og Pakistans, síðast þegar sást til þeirra.

mbl.is