Aðstæður eru erfiðar til leitar

Í hlíðum K2. Muhammad Ali Sa­dp­ara og John Snorri Sigurjónsson.
Í hlíðum K2. Muhammad Ali Sa­dp­ara og John Snorri Sigurjónsson. Facebook-síða Johns Snorra

Leit hófst að nýju í morgun að John Snorra Sigurjónssyni, Pakistananum Muhammad Ali Sadpara og Juan Pablo Mohr frá Chile. Aðstæður eru erfiðar til leitar á K2 vegna slæms veðurs á fjallinu. Tvær þyrlur pakistanska hersins tóku þátt í leitinni en urðu frá að hverfa. 

Björgunarfólk bíður nú eftir að nýr veðurgluggi opnist til leitar að sögn sjerpans Chhang Dawa sem tekur þátt í leitinni. 

Fjallgöngumennirnir misstu samband við grunnbúðir á föstudag og var gefið út á laugardag að þeirra væri saknað. 

Nokkrir sérfræðingar, þar á meðal þrautþjálfaðir innlendir fjallgöngumenn, Imtiaz Hussain og Akbar Ali frá borginni Skardu, Rúmeninn Alex Găvan, auk Nazir Sabir, Chhang Dawa og fleiri úr teymi Seven Summit-fjallaferðaskrifstofunnar (SST), taka þátt í leitinni. 

Undanfarna þrjá daga hafa flugmennirnir unnið þrekvirki en því miður hefur ekkert fundist sem bendir til hvar þremenningana er að finna segir sjerpi, Chhang Dawa, sem tók þátt í leitinni í morgun. 

Ali Asghar Porik, sem stýrir Jasmine Tours, segir að til þess að það sé hægt að leita á þyrlum á K2 þurfi að vera gott skyggni í fjórar klukkustundir.

Það taki þyrlurnar 40 mínútur að fljúga að grunnbúðum frá Skardu. Þegar komið er í 5 þúsund metra hæð fari veður að versna og um leið er það óútreiknanlegt í svo mikilli hæð. „Það þarf að vera gott skyggni á fjallinu því að öðrum kosti er ekki hægt að halda leit áfram,“ segir Porik.

Pakistanski vefurinn Dawn segist hafa heimildir fyrir því að sjerparnir séu að taka saman föggur sínar í grunnbúðum og að kanadíski kvikmyndagerðarmaðurinn Elia Saikaly og fjallgöngumaðurinn Pasang Norbu séu farnir með þyrlu til Skardu. Þar er aftur á móti búnaður fyrir aðra, svo sem gervihnattasími og fleira. 

Saikaly hefur verið í grunnbúðum í rúmar tvær vikur en hann er að gera heimildarmynd um tilraun Johns Snorra og Sadpara-feðganna til að sigra tind K2 að vetri til. 

Sajid Sadpara, sonur Ali Sadpara, sem var hluti af leiðangrinum varð að snúa við þegar hann lenti í vandræðum með súrefni auk þess sem honum leið illa andlega þegar þeir voru komnir í yfir 8.200 metra hæð. K2 er 8.611 metrar að hæð og einn erfiðasti farartálminn af mörgum er ísveggurinn Bottleneck skammt fyrir neðan tindinn. 

Sajid lýsti uppgöngunni fyrir blaðamönnum í gær þegar hann kom til Skardu. Að hans sögn hófu þeir uppgönguna skömmu fyrir miðnætti (klukkan 19 á íslenskum tíma) 5. febrúar. „Ég, faðir minn Ali Sadpara, John Snorri og JP Mohr, vorum við Bottleneck en aðrir fjallgöngumenn höfðu snúið við,“ sagði Sajid. Hann sneri við í búðir 3 þegar súrefniskútur hans fór að leka.

Það var um hádegi að pakistönskum tíma á föstudeginum sem Sajid sneri við og kom í búðir 3 um klukkan 17. Honum tókst ekki að komast í samband við fjallgöngumennina þar sem samskiptatæki þeirra voru óvirk. Um nóttina beið hann þeirra í búðunum og gætti þess að hafa kveikt ljós þannig að þeir myndu ekki missa af búðunum þegar þeir kæmu niður.

Á laugardagsmorgninum var Sajid ráðlagt af stjórnanda grunnbúða að reyna ekki að hefja leit að þremenningunum vegna veðurútlits og halda frekar niður á við enda búinn að vera í yfir 8 þúsund metra hæð í tvo sólarhringa. Hann kom síðan í grunnbúðir á laugardagskvöldinu. 

Karrar Haideri hjá pakistanska alpaklúbbnum staðfesti í samtali við Dawn.com áðan að reynt hefði verið að leita í morgun án árangurs. Vegna veðurs væru aðstæður til leitar mjög erfiðar.

Sjerparnir Chhang Dawa og Lakpa Dendi voru sóttir af áhöfnum herþyrlna í morgun en þurftu að snúa við aftur í grunnbúðir. Tvær herþyrlur hafi tekið þátt með aðstoð hersveitar í flugher Pakistans. Þyrlunum hafi verið flogið yfir svæði þar sem búist er við að fjallgöngumennirnir séu. Lítið skyggni hafi verið þegar ofar dró og skýjahula yfir fjallinu. 

AP

Vefur Alan Arnette

Guardian

mbl.is