Biður fyrir kraftaverki

John Snorri var sérstaklega hrifinn af myndinni sem hér fylgir, …
John Snorri var sérstaklega hrifinn af myndinni sem hér fylgir, að sögn Saikaly. Af Facebook-síðu John Snorra

Fjallgöngumaðurinn John Snorri Sigurjónsson er hugrakkur, djarfur og góðhjartaður maður sem elskar fjölskyldu sína, að sögn kanadíska kvikmyndagerðarmannsins Elia Saikaly sem vinnur að gerð heimildarmyndar um leiðangur Johns Snorra og samferðamanns á K2. 

Saikaly fjallaði um John Snorra í langri færslu á Instagram í dag en ekkert hefur spurst til Johns Snorra og samferðamanna hans Ali Sadpara og Juan Pablo Mohr síðan á föstudag. John Snorri ætlaði sér upphaflega að vera sá fyrsti sem klifi K2, sem er á landamærum Pakistans og Kína, að vetrarlagi. 

„Ef einhver getur þetta þá er það John Snorri

Saikaly segist enn biðja fyrir kraftaverki og ímynda sér að John Snorri finnist á lífi. „Ef einhver getur þetta þá er það John Snorri,“ skrifar Saikaly.

„John elskaði Pakistan. Hann elskaði fólkið hér, dáði Ali, Sajid og starfsfólkið og kom fram við þau eins og fjölskyldu sína,“ skrifar Saikaly sem segist hafa skipulagt heimildarmyndina með John, hlegið með honum og rætt við hann um leyndardóma lífsins. 

„Það sem heillaði mig mest við John var hjarta hans. Geta hans til að sýna samkennd, djúp umhyggja hans fyrir þeim sem í kringum hann eru og aðallega ást hans á konu sinni Línu og sex börnum þeirra.“

View this post on Instagram

A post shared by Elia Saikaly (@eliasaikaly)

mbl.is