Kusa segir Japani hafa saknað íslenskrar loðnu

Kusa að störfum í fiskiðjuverinu í Neskaupstað. Líneik Haraldsdóttir er …
Kusa að störfum í fiskiðjuverinu í Neskaupstað. Líneik Haraldsdóttir er með honum á myndinni. Ljósmynd/Hákon Ernuson

„Loðnan er vin­sæll mat­ur í Jap­an. Hún er mest söltuð og þurrkuð og síðan hituð á pönnu eða í ofni. Loðnan er borðuð eins og hvert annað snakk og oft drukk­inn bjór með,“ seg­ir Taka­ho Kusayanag, full­trúi jap­ansks loðnu­kaup­anda, á vef Síld­ar­vinnsl­unn­ar.

Full­trú­inn, sem alla jafna er þekkt­ur sem Kusa, er stadd­ur í fiskiðju­veri Síld­ar­vinnsl­unn­ar í Nes­kaupstað til að fylgj­ast með loðnu­vinnsl­unni. „Jap­an­ir söknuðu þess mjög að fá ekki ís­lenska loðnu,“ seg­ir Kusa sem er einn þriggja starfs­manna jap­ansks kaup­anda sem ný skoða loðnuna sem kem­ur að landi.

„Ég veit að loðnu­leysið hafði slæm áhrif á mörg fyr­ir­tæki hér á Íslandi og sömu sögu er að segja frá Jap­an. Fyr­ir­tæk­in þar sem vinna Íslands­loðnuna lentu í veru­leg­um erfiðleik­um,“ út­skýr­ir hann.

Fylgst með loðnu í 30 ár

Þekkt er að það er ekki bara loðnan sjálf sem er eft­ir­sótt í Jap­an, en loðnu­hrogn­in eru mikið notuð í sus­higerð.

„Við vilj­um helst hafa loðnuna með yfir 13% hrogna­fyll­ingu. Sú loðna sem veiðst hef­ur núna hef­ur hingað til ein­ung­is verið með 9-10% hrogna­fyll­ingu þannig að við bíðum eft­ir að hrogna­fyll­ing­in auk­ist og það mun ger­ast fljót­lega. Við fylgj­umst dag­lega með þeirri loðnu sem berst að landi og bíðum eft­ir því að hún verði hæf fyr­ir okk­ar markað. Fram að því er fram­leitt fyr­ir aðra markaði.“

Kusa er eng­inn nýgræðing­ur þegar kem­ur að loðnunni og kom fyrst til Íslands fyr­ir um 30 árum. „Ég […] fylgd­ist í upp­hafi mest með vinnslu í Vest­manna­eyj­um, Grinda­vík, Kefla­vík og Þor­láks­höfn. Und­an­far­in ár hef ég verið í Nes­kaupstað. Þar þekki ég orðið all­ar aðstæður og fólkið þar eru kunn­ingj­ar mín­ir og vin­ir. Það er af­skap­lega gott að koma til Nes­kaupstaðar og starfa þar.“

mbl.is