Lýsa yfir óvissustigi á Austurlandi

Frá Seyðisfirði eftir skriður sem féllu þar í desember.
Frá Seyðisfirði eftir skriður sem féllu þar í desember. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Veðurstofa Íslands lýsir yfir óvissustigi vegna ofanflóðahættu á Austurlandi. Tekur óvissustigið gildi klukkan 20 í kvöld, en gripið er til þessa ráðs þar sem spáð er mikilli rigningu næsta einn og hálfa sólarhringinn.

„Spáð er vaxandi úrkomu í SA-átt sem byrjar í kvöld sem rigning á láglendi en slydda eða snjókoma í fjöllum. Það hlýnar á morgun og gæti rignt upp í fjallatoppa í SA 13-18 m/s. Spáð er uppsafnaðri úrkomu á bilinu 100-200 mm,“ segir í tilkynningu frá almannavarnadeild ríkislögreglustjóra.

Fylgjast með aðstæðum

„Talsverður snjór er sums staðar í fjöllum og við þessar aðstæður gætu vot snjóflóð fallið og jafnvel krapaflóð eða skriður þegar líður á veðrið. Fylgst verður með aðstæðum og metið á morgun, sunnudag, hvort grípa þurfi til ráðstafana m.a. á Seyðisfirði þar sem skriður féllu í desember. Samkvæmt veðurspá dregur hratt úr úrkomunni aðfaranótt mánudags.“

Sérfræðingar á ofanflóðavakt Veðurstofu Íslands eru sagðir fylgjast með aðstæðum á staðnum sem og með sjálfvirkum mælitækjum.

mbl.is