Grímur kannar tengsl við skipulagða glæpastarfsemi

Grímur Grímsson
Grímur Grímsson mbl.is/Hari

Europol og alþjóðadeild Rík­is­lög­reglu­stjóra hafa verið lög­regl­unni á höfuðborg­ar­svæðinu inn­an hand­ar í tengsl­um við morðið í Rauðagerði. Grím­ur Gríms­son, fyrr­um yf­ir­maður miðlægr­ar gagna­deild­ar lög­regl­unn­ar á höfuðborg­ar­svæðinu, er tengsla­full­trúi Íslands hjá Europol. 

Hann seg­ir að fyr­ir­spurn­ir lög­regl­unn­ar til er­lendra lög­reglu­embætta hafi all­ar snúið að upp­lýs­inga­öfl­un í víðum skiln­ingi. Gera má ráð fyr­ir því að þetta séu upp­lýs­ing­ar um per­són­ur og leik­end­ur í mál­inu. Grím­ur seg­ir að ekki hafi verið óskað eft­ir aðstoð með öðrum hætti þ.e. í formi liðaauka við rann­sókn­ina. „Það er ekki hægt að tala um fjölda fyr­ir­spurna held­ur er það mitt hlut­verk að koma á sam­skipt­um við er­lend lög­reglu­yf­ir­völd og Europol í mínu til­viki,“ seg­ir Grím­ur og bæt­ir við. „Mitt hlut­verk og hlut­verk Europol yfir höfuð er að kanna tengsl við skipu­lagða glæp­a­starf­semi,“ seg­ir Grím­ur.  

Ekki með aðgang að gagna­grunni 

Hann seg­ist ekki hafa aðgang að er­lend­um gagna­grunn­um held­ur beri hon­um að koma fyr­ir­spurn­um til lög­gæslu­stofn­anna á fram­færi. „Það hafa verið að ber­ast svör frá sam­starfsaðilum. Þau svör eru bæði í formi efn­is­legra upp­lýs­inga og líka þannig að eng­ar upp­lýs­ing­ar koma fram,“ seg­ir Grím­ur.

Grím­ur fór fyr­ir rann­sókn á hvarfi Birnu Brjáns­dótt­ur árið 2017 og tók það sama ár við starf­inu hjá Europol. Þá var Grím­ur einn um­sækj­enda um stöðu rík­is­lög­reglu­stjóra á síðasta ári. 

mbl.is