Tveggja vikna „loðnuhátíð“ við Ísland skilaði 600 milljónum norskra króna í afla, rúmlega níu milljörðum íslenskra króna, sagði í norska blaðinu Fiskaren fyrir helgi. Er þá miðað við meðalverð upp á 14,50 norskar krónur fyrir kíló eða um 221 íslenska krónu.
Talsvert hefur verið fjallað um hátt verð sem fengist hefur fyrir loðnuna í gegnum uppboð á vegum Norges sildesalgslag og hvert metið verið slegið af öðru.
Samkvæmt reglugerð máttu Norðmenn stunda hér loðnuveiðar til og með 22. febrúar, en á föstudag voru aðeins tvö norsk skip á miðunum fyrir austan land og lítið eftir af kvótanum. Norðmenn máttu alls veiða 41.808 tonn af loðnu í fiskveiðilandhelginni, að því er fram kemur í Morgunblaðinu í dag.