Að mati fiskifræðinga á Hafrannsóknastofnun er ekki ástæða til að bregðast sérstaklega við fréttum af loðnugöngum í norðanverðum Faxaflóa og í Skjálfanda og nálægt Grímsey.
Birkir Bárðarson fiskifræðingur segir að við skoðun gagna frá Polar Amaroq telji þeir að innan við 100 þúsund tonn hafi verið í torfu í Faxaflóa sem skipið sigldi yfir á mánudag. Þarna sé að öllum líkindum á ferðinni fremsti hluti göngunnar, sem áður var mæld úti af Austfjörðum.
Varðandi loðnufréttir að norðan þá hafi rannsóknaskipið Bjarni Sæmundsson orðið vart við loðnu á fyrrnefndum slóðum, en ekki mikið magn. Nokkur loðnuskip voru að veiðum undan Þjórsárósum í gær, en stór hluti uppsjávarskipanna mun fara til loðnuveiða og hrognatöku eftir helgi.