Bandaríski herinn framkvæmdi fyrr í dag loftárás sem beindist að vígasveitum sem styðja Íran í Sýrlandi í fyrstu hernaðaraðgerð sem framkvæmd er í forsetatíð Joe Bidens Bandaríkjaforseta. Bandaríska varnarmálaráðuneytið sagði að árásin hefði verið fyrirskipuð til þess að bregðast við árásum á starfsmenn Bandaríkjanna í Írak.
Aðgerðir Bandaríkjanna eyðilögðu aðstöðu sem notuð var af íröskum vígasamtökum, að sögn varnarmálaráðuneytisins sem hefur sagt að einn hafi látist í árásinni. Þó er útlit fyrir að fleiri hafi fallið, nánar tiltekið að minnsta kosti 22 einstaklingar.
Stjórnvöld í Damaskus í Sýrlandi fordæmdu árásina og kölluðu hana „slæmt tákn“ frá nýrri stjórn Bidens.
Varnarmálaráðuneyti Bandaríkjanna sagði árásina, sem var framkvæmd nálægt landamærum Íraks í austurhluta Sýrlands, hæfileg hernaðarleg viðbrögð við árásum sem beinst hefðu að bandarískum bækistöðvum í Írak.