Drög sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra að frumvarpi um breytingu á ýmsum lögum á sviði fiskveiðistjórnunar til að styrkja eftirlit Fiskistofu hefur verið lagt til umsagnar í samráðsgátt.
Lagt er til að heildstæðu viðurlagakerfi verði komið á fót vegna brota á lögum á sviði fiskveiðistjórnar. Sömu heimildir verði milli mismunandi laga til að bregðast við brotum.
Einnig er lagt til að Fiskistofa fái heimildir til álagningar stjórnvaldssekta vegna brota á fiskveiðilöggjöfinni. Þá er lagt til að heimildir Fiskistofu til að framkvæma rafrænt eftirlit verði styrktar, að því er kemur fram í drögunum.
Loks er lagt til að hugtakið raunveruleg yfirráð við framkvæmd reglna um hámarksaflahlutdeildir verði afmarkað betur.
Samkvæmt drögunum að frumvarpinu verður eftirlitsmönnum Fiskistofu heimill aðgangur að rafrænum vöktunarkerfum á löndunarhöfnum í þeim tilgangi að hafa eftirlit með löndun afla.
Skipstjórnarmenn veiðiskipa skulu halda rafrænar afladagbækur eða rafræna aflaskráningu með snjallsímaforriti. Fiskistofa getur svipt skip leyfi til veiða í atvinnuskyni vegna vanskila á afladagbókum og skal leyfissvipting standa þar til skil hafa verið gerð eða skýringar hafa verið gefnar á ástæðum vanskila. Þá er skipstjórum skipa sem vinna afla um borð skylt að halda um vinnslu aflans í sérstakri vinnsludagbók.
Umsagnarfrestur í samráðsgátt vegna draganna að lagafrumvarpinu er til 8. mars.