Loðnufrystingu á yfirstandandi loðnuvertíð er lokið í fiskiðjuverinu í Neskaupstað og er beðið eftir að hrognataka hefjist, að því er fram kemur í færslu á vef Síldarvinnslunnar. Börkur NK er staddur á Breiðafirði, Beitir NK er á leiðinni vestur fyrir land og Bjarni Ólafsson AK er ný lagður frá Hafnarfjarðarhöfn.
Hálfdan Hálfdanarson, skipstjóri á Berki NK, kveðst ekki alveg viss hvenær megi búast við að veiðar á hrognaloðnunni hefjist.
„Það er hálfgerð bræla hér á Breiðafirðinum og við erum bara í biðstöðu. Í augnablikinu höfum við líka lítið séð en það mun breytast þegar skipum fjölgar hérna og veðrið lagast. Veðrið á að ganga niður í dag og ég held að eigi að verða fínt veður á morgun. Síðan er það bara spurningin hvort loðnan er tilbúin til hrognatökunnar,“ segir Hálfdan.
Fram kemur í færslunni að grænlenska skipið Polar Amaroq, sem frystir loðnu um borð, hafi landað fullfermi sex sinnum á vertíðinni. Skipið landaði á laugardag og lá síðan inni á Faxaflóa að frysta afla á meðan á brælunni yfir helgina stóð, en aflinn var geymdur í tönkum skipsins á meðan landað var.
„Við erum núna í sjöunda túr og það hefur allt gengið eins og í sögu. Vinnslan hefur gengið vel og veiðin verið góð. Við fórum út klukkan sex í morgun og erum núna suðvestur af Garðskaga að leita,“ segir Ólafur Sigurðsson stýrimaður.