Vonast til að kynna frekari aðgerðir fyrir atvinnulausa

Ásmundur Einar Daðason félagsmálaráðherra í tröppum Ráðherrabústaðarins nýverið. Bjarni Benediktsson …
Ásmundur Einar Daðason félagsmálaráðherra í tröppum Ráðherrabústaðarins nýverið. Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra sést fyrir aftan hann. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Ásmund­ur Ein­ar Daðason, fé­lags- og barna­málaráðherra, von­ast til að geta kynnt frek­ari aðgerðir, sem stjórn­völd eru með í und­ir­bún­ingi, til að til að grípa inn í á vinnu­markaði og aðstoða þá sem hafa misst vinn­una í kór­ónu­veirufar­aldr­in­um. 

Odd­ný G. Harðardótt­ir, þingmaður Sam­fylk­ing­ar­inn­ar, ræddi mál­efni at­vinnu­lausra í óund­ir­bún­um fyr­ir­spurna­tíma á Alþingi í dag. Hún benti á að sveit­ar­fé­lög og stétt­ar­fé­lög hafi kallað eft­ir leng­ingu tíma­bils at­vinnu­leys­is­bóta. Sam­fylk­ing­in hafi lagt slíkt til slag í slag og það hafi jafnóðum verið fellt af stjórn­ar­liðum. „Ég spyr: Hvers vegna vill hæst­virt­ur fé­lags- og barna­málaráðherra ekki lengja tíma­bil at­vinnu­leys­is­bóta við þess­ar aðstæður? Hvers vegna ekki?“

Aldrei úti­lokað að lengja bóta­tíma­bilið

Ásmund­ur sagði að nú­ver­andi rík­is­stjórn hefði hækkað bæt­ur. „Við höf­um lengt tekju­tengda tíma­bilið, við höf­um hækkað greiðslur til ein­stak­linga sem eru at­vinnu­laus­ir og eru með börn á fram­færi. Þar hef­ur verið hækkað það álag sem leggst á at­vinnu­leys­is­bæt­ur. Sá sem hér stend­ur eða rík­is­stjórn­in hef­ur aldrei úti­lokað mögu­leik­ann á því að lengja bóta­tíma­bil. Ég hef sagt það og sér­stak­lega und­an­farn­ar vik­ur að við höf­um verið að fara yfir þau mál og skoða með hvaða hætti sé skyn­sam­legt að grípa þarna inn í. Við höf­um átt góð sam­töl um það við Sam­band ís­lenskra sveit­ar­fé­laga og erum að forma aðgerðir í þá veru að ná utan um þann hóp sem er bú­inn að vera at­vinnu­laus í 30 mánuði eða leng­ur eða er að detta inn á það,“ sagði ráðherra.

Oddný G. Harðardóttir, þingmaður Samfylkingarinnar.
Odd­ný G. Harðardótt­ir, þingmaður Sam­fylk­ing­ar­inn­ar. mbl.is/​Arnþór

Hann sagði, að það yrði gert með tvennt í huga. Ann­ars veg­ar að tryggja fram­færslu þessa fólks, sem væri gríðarlega mik­il­vægt, og hins veg­ar að finna leiðir til að koma því í virkni sam­hliða og koma at­vinnu­líf­inu af stað.

„Við höf­um verið að forma leiðir til að ná þessu hvoru tveggja. Ég bind von­ir við að við get­um kynnt þær á næst­unni vegna þess að ég tek und­ir með hátt­virt­um þing­manni að það er gríðarlega mik­il­vægt að ná utan um þess­ar fjöl­skyld­ur, ná utan um þessa ein­stak­linga. Það hef­ur rík­is­stjórn­in gert eins og ég rakti hér áðan, og það ætl­um við okk­ur að gera áfram. Ég bind von­ir við að við get­um kynnt það á næst­unni,“ sagði Ásmund­ur. 

Bera ákveðnar sam­fé­lags­leg­ar skyld­ur

Odd­ný spurði í kjöl­farið hversu flókið þetta mál væri. „Hvað þarf nefnd lang­an tíma til að átta sig á hver staðan er hjá fólki sem misst hef­ur vinn­una í at­vinnukreppu? Þessi nefnd er búin að starfa síðan í byrj­un des­em­ber, það kom alla vega fram í máli hæst­virts for­sæt­is­ráðherra, 14. des­em­ber, og nú er kom­inn mars og það er ekk­ert að frétta. Hvað er svona flókið? Hvern ein­asta dag sem hæst­virt­ur fé­lags- og barna­málaráðherra sit­ur hjá og tek­ur ekki á mál­inu eykst efna­hags­leg­ur og fé­lags­leg­ur vandi sem mun hafa mik­inn kostnað í för með sér í framtíðinni,“ sagði hún og bætti við að við sem sam­fé­lag bær­um ákveðnar skyld­ur til að taka á þess­um vanda. 

Ásmund­ur tók fram að stjórn­völd hafi verið í mjög góðu sam­bandi við sveit­ar­fé­lög­in. Einnig við Fé­lagsþjón­ustu sveit­ar­fé­laga og við Sam­band ís­lenskra sveit­ar­fé­laga. Hann benti á að eng­in nefnd sé starf­andi held­ur sé málið verið, inn­an ráðuneyt­is­ins í sam­starfi við sveit­ar­fé­lög­in, að kort­leggja þann hóp sem er að klára bóta­tíma­bil.

Sam­hliða hafi verið unnið að því að teikna upp mögu­leik­ann á að ná bet­ur utan um þenn­an hóp fjár­hags­lega, bæði gagn­vart þeirra stöðu, gagn­vart stöðu sveit­ar­fé­lag­anna og líka til þess að koma fólki í virkni. 

„Rík­is­stjórn­in hef­ur svo sann­ar­lega verið með marg­vís­leg­um aðgerðum að grípa inn í á vinnu­markaði og við erum að und­ir­búa frek­ari aðgerðir í því og mun­um gera það áfram eft­ir því sem kór­ónu­veirufar­ald­ur­inn dregst á lang­inn. Það er mjög skyn­sam­legt að gera það, að vera alltaf á tán­um, og það hef­ur rík­is­stjórn­in gert,“ sagði fé­lags­málaráðherra. 

mbl.is