Bandaríski uppboðsvefurinn eBay mun ekki annast endursölu á sex bókum Dr. Seuss eftir að útgefandi þeirra hætti útgáfu þeirra vegna myndskreytinga sem þykja sýna kynþáttafordóma.
Wall Street Journal greindi frá þessu í gær en útgáfan Dr. Seuss Enterprises tilkynnti á þriðjudag að barnabækurnar yrðu ekki prentaðar að nýju. Í kjölfarið upphófst mikið kapphlaup á eBay um að eignast þessar bækur, If I Ran the Zoo, Scrambled Eggs Super, McElligot's Pool, On Beyond Zebra!, And To Think That I Saw It On Mulberry Street og The Cat's Quizzer.
Til að mynda hækkaði verðið sem fólk var reiðubúið til að greiða fyrir fyrstu prentun bókarinnar On Beyond Zebra! úr 14,99 bandaríkjadölum á mánudag í 810 dali á þriðjudag.
Talskona eBay segir í samtali við WSJ að unnið sé að því að taka bækurnar úr endursölu og það gæti tekið einhvern tíma.
Bækur Dr. Seuss, sem hét réttu nafni Thedor Seuss Geisel, hafa verið þýddar á fjölmörg tungumál og eru gefnar út í yfir 100 löndum, meðal annars í blindraletri. Þá hafa bækurnar verið gerðar að geysivinsælum kvikmyndum, meðal annars Trölli sem stal jólunum með Jim Carrey í aðalhlutverki og teiknimyndinni Lorax.
Þrátt fyrir vinsældir bókanna hafa þær á síðustu árum verið gagnrýndar fyrir lýsingar á sögupersónum sem ekki eru hvítar á hörund. Í bókinni And To Think That I Saw It on Mulberry Street, er persóna sem á að vera kínversk m.a. teiknuð með tvær línur fyrir augu, haldandi á prjónum og skál af hrísgrjónum og klædd skóm í japönskum stíl.
Í bókinni If I Ran the Zoo eru tveir afrískir karlmenn teiknaðir berir að ofan, skólausir og í pilsum úr stráum.
Seuss fæddist í Massachusetts árið 1904 og gaf út rúmlega 60 bækur um ævina. Margar þeirra eru vinsælustu barnabækur allra tíma, þar á meðal Kötturinn með höttinn og Hvernig Trölli stal jólunum. Seuss lést árið 1991.
Árið 2017 sagði bókasafnsfræðingur í Cambridge í Massachusetts að ekki yrði þegið boð um að þiggja tíu Dr. Seuss-bækur frá þáverandi forsetafrú Bandaríkjanna, Melaniu Trump, vegna þess að bækurnar væru gegnsýrðar af rasískum áróðri, háðsmyndum og hættulegum staðalímyndum.