Fær ekki að vera verjandi

Steinbergur Finnbogason hefur starfað sem lögmaður fyrir Íslendinginn sem um …
Steinbergur Finnbogason hefur starfað sem lögmaður fyrir Íslendinginn sem um ræðir um langt skeið. mbl.is/Kristinn Magnússon

Stein­berg­ur Finn­boga­son fær ekki að vera verj­andi Íslend­ings sem er sak­born­ing­ur í morðmál­inu í Rauðagerði, sam­kvæmt ákvörðun Héraðsdóms Reykja­vík­ur frá því í morg­un.

Skip­un hans sem verj­anda var aft­ur­kölluð á þeim grund­velli að hann kynni að vera kallaður inn sem vitni í mál­inu. 

Frétta­blaðið greindi fyrst frá.

Stein­berg­ur seg­ir í sam­tali við mbl.is að hann hygg­ist vísa ákvörðun héraðsdóms til Lands­rétt­ar. Þar hef­ur hann trú á að ein­blínt verði á það hvort hægt sé að sýna fram á að hann búi yfir vitn­eskju um málið sem kom­in er til áður en hann var lög­lega skipaður verj­andi Íslend­ings­ins í mál­inu.

„Ég get full­yrt að ég bý ekki yfir neinni slíkri vitn­eskju eða neinni ann­arri vitn­eskju sem gæti verið und­anþegin trúnaðarskyldu á nokk­urn hátt,“ seg­ir Stein­berg­ur.

Al­var­leiki máls skipti ekki máli

Hann seg­ir skýr­ing­ar Mar­geirs Sveins­son­ar, yf­ir­manns miðlægr­ar rann­sókn­ar­deild­ar lög­regl­unn­ar á höfuðborg­ar­svæðinu, á kröfu lög­regl­unn­ar ótæk­ar. Mar­geir hafi ít­rekað al­var­leika máls­ins í viðtali í fjöl­miðlum í gær. Þar með seg­ir Stein­berg­ur að hann hafi gefið í skyn að regl­urn­ar væru með öðrum hætti hvað varðaði al­var­legri saka­mál. „Þetta er eitt­hvað sem verj­andi hef­ur ekki heyrt áður,“ seg­ir Stein­berg­ur.

Stein­berg­ur hef­ur starfað sem lögmaður fyr­ir Íslend­ing­inn sem um ræðir um langt skeið. „Þó að ég byggi yfir ein­hverri vitn­eskju sem lögmaður ætti samt eft­ir að meta hvort það væru upp­lýs­ing­ar sem ég mætti gefa upp. Eina leiðin til þess að ég megi gefa eitt­hvað upp væri ef þetta væru upp­lýs­ing­ar sem hefðu úr­slita­áhrif fyr­ir málið. Ég full­yrði að svo sé ekki.“

Stein­berg­ur treyst­ir því að Lög­manna­fé­lagið muni fara vand­lega yfir málið, einkum með til­liti til þess í hve mörg­um til­vik­um verj­end­ur sem ekki hafa fengið skip­un hafa raun­veru­lega verið vitni eða lagt fram vitn­is­b­urð sem ein­hverju máli skipti.

Steinbergur Finnbogason var verjandi Íslendings í Rauðagerðismálinu.
Stein­berg­ur Finn­boga­son var verj­andi Íslend­ings í Rauðagerðismál­inu. Ljós­mynd/​Aðsend
mbl.is