Hjörtur Jóhann Jónsson er leikari í dag, en hefði auðveldlega getað orðið heimspekingur á fjöllum. Þó svo að leiklistin sé ein vinsælasta atvinnugreinin í fjölskyldunni var það þónokkur ákvörðun fyrir hann að leggja hana fyrir sig, en á leiðinni kom hann við í björgunarsveitinni og í heimspeki í Háskóla Íslands. Á endanum var leiklistin þó það eina sem hann fékk ekki leið á og í þessu viðtali fáum við að skyggnast inn í hug leikarans. Ferill Hjartar er fjölbreyttur, en þjóðin hefur fengið að njóta hans í mörgum sýningum á borð við Ríkharð III, Ellý og Bláa hnettinum. Í dag er hann fastráðinn hjá Borgarleikhúsinu, tveggja barna faðir, gengur ekki (á fjöll) í legghlífum, og elskar það! Hann er gestur Snæbjörns Ragnarssonar í hlaðvarpsþættinum, Snæbjörn talar við fólk.
Í viðtalinu kemur fram að flestir í fjölskyldu hans eru leikarar og líka systir hans, Helga Braga Jónsdóttir.
„Mér fannst þetta líka eitthvað svo ljóst núna í COVID, og allt í einu gerist það bara að leikhús er bannað [...] hvað það er sérstök upplifun að upplifa eitthvað svona í hóp, skilurðu? Það er ekki það sama að horfa á bíómynd heima hjá þér heldur en að gera það í fullum sal af fólki, saman. [...] Það er eitthvað svona primal þörf held ég, hjá fólki að ganga í gegnum eitthvað saman. Upplifa eitthvað saman [...] Eins og í leikhúsi [...] þar sem þú ert að hlæja með 550 mann, skilurðu, og við erum öll saman að fara í gegnum eitthvað. Það er eitthvert svona algjört magic, sem að maður fattaði svona þegar þetta var tekið frá manni, að mann vantaði. Við vorum að streyma einhverjum leiksýningum og eitthvað dót og það er þú veist, ágætt sem slíkt, en það er ekki það sama. Það er – galdurinn liggur í því að vera saman í hóp.“
Í viðtalinu segir hann frá því þegar hann var eitt sinn staddur á Kúbu og reyndi að lifa með innfæddum og kynnast menningunni. Hann og vinur hans rákust á hóp af Íslendingum sem voru ekkert að skafa af hlutunum.
„Þeir allavega spotta okkur og að við séum Íslendingar, og það kemur einhver gaur upp að okkur og þetta var án gríns... það kemur einhver gæi upp að okkur, og það fyrsta sem hann segir er „Blessaður, eru þið eitthvað búnir að vera í mellunum?“ Fyrsta sem hann segir! Og við bara.. einhverjir tveir gaurar, eitthvað geggjað mikið að skoða [...] Kúbu og vera eitthvað eins og innfæddir [...] vorum eitthvað „ööö“ [...] og hann var bara „Nei, hann Gunni félagi sko, hann er ekki búinn að fara af hótelinu sko, hann er svo mikið fyrir þessa svörtu.“ [...] þá föttuðum við að okkar leið er betri, okkar mission er betra. [...] Mér fannst þetta alveg magnað, að detta þetta í hug einhvern veginn að þetta sé bara [...] góð opnun á samræðum.
Hægt er að hlusta á þáttinn í heild sinni á hlaðvarpsvef mbl.is.