„Hugsunin er sú að við séum að koma þeim sem hafi verið án atvinnu í lengri tíma út á vinnumarkaðinn,“ segir Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra við mbl.is. Hún og Ásmundur Einar Daðason, félags- og barnamálaráðherra kynntu atvinnuátakið „Hefjum störf“ á blaðamannafundi í húsnæði Vinnumálastofnunar í dag.
Markmiðið með átakinu er að skapa allt að sjö þúsund tímabundin störf í samvinnu við atvinnulífið, opinberar stofnanir, sveitarfélög og félagasamtök. Ráðgert er að verja um 4,5 til 5 milljörðum króna í átakið en með því að gera litlum og meðalstórum fyrirtækjum auðveldara að ráða starfsfólk.
Hverjum nýjum starfsmanni mun fylgja allt að 472 þúsund króna stuðningur á mánuði, auk 11,5% framlags í lífeyrissjóð í allt að sex mánuði. Fyrirtæki geta ráðið eins marga starfsmenn og það þarf þangað til að heildarfjöldi starfsmanna hefur náð 70.
Katrín segir að með þessu séu stjórnvöld í raun og veru að borga fyrirtækjum, stofnunum, sveitarfélögum og frjálsum félagasamtökum til að ráða fólk og á sama tíma minnka atvinnuleysi.
„Markmiðið er að draga úr þessu langtímaatvinnuleysi. Þetta er hugsað til sex mánaða svo verðum við að meta stöðuna að því loknu,“ segir Katrín.
Katrín segist sjá verkefnið fyrir sér sem viðspyrnu nú þegar sífellt fleiri Íslendingar eru bólusettir þó tíðindi af tímabundinni stöðvun bóluefnis AstraZeneca í gær séu ekki góð.
„Ég hef væntingar til þess og trú á að ferðaþjónustan muni fara hægt og bítandi af stað með sumrinu og þá styðja þessar aðgerðir hver við aðra.“