Beðið eftir endanlegu loðnuverði til sjómanna

Árni Bjarnasonm formaður Félags skipstjórnarmanna, segir verð til sjómanna á …
Árni Bjarnasonm formaður Félags skipstjórnarmanna, segir verð til sjómanna á loðnuvertíðinni hafa verið varlega áætlað. Eggert Jóhannesson

Það er því næsta víst að það skipta­verð sem lagt er til grund­vall­ar fyr­ir afla­hlut sjó­manna hlýt­ur að vera mjög var­lega áætlað, svo ekki sé dýpra í ár­inni tekið,“ skrif­ar Árni Björns­son, formaður Fé­lags skip­stjórn­ar­manna, í aðsendri grein í Morg­un­blaðinu í dag um að sjó­mönn­um hef­ur verið greitt frá upp­hafi loðnu­vertíðar um 100 krón­ur á kíló.

Bend­ir Árni hins veg­ar á í grein sinni á að hæsta verð sem greitt var fyr­ir norsk­an farm, sem hann hef­ur heyrt af, hafi verið 252 krón­ur á kíló af loðnu.

„Að þessu sinni tek­ur í það minnsta ein út­gerð fram í sín­um verðsamn­ingi að tekið verði til­lit til end­an­legs afurðaverðs við launa­upp­gjör henn­ar sjó­manna, sem er þeirri út­gerð til sóma og ætti að verða öðrum út­gerðum til eft­ir­breytni,“ skrif­ar hann.

Loðnunót
Loðnunót mbl.is/​Hanna Andrés­dótt­ir

Grein Árna í heild:

Vel heppnuð loðnu­vertíð

Um þess­ar mund­ir er langt kom­in stutt og snörp loðnu­vertíð sem er kær­kom­in himna­send­ing til handa hags­munaaðilum eft­ir tveggja ára loðnuþurrð. Heyra og lesa má í fjöl­miðlum já­kvæð viðbrögð úr öll­um átt­um inn­an grein­ar­inn­ar bæði til sjós og lands þar sem menn gleðjast yfir stemn­ing­unni með til­heyr­andi loðnu­lykt og vænt­ing­um um upp­grip á skömm­um tíma. Mikl­ar vænt­ing­ar um hátt verð voru og eru meðal loðnu­sjó­manna ekki síst þegar horft var til mik­ill­ar eft­ir­spurn­ar þar sem ekki hef­ur borist uggi af loðnu frá Íslandi til Jap­ans í tvö ár. Vænt­ing­arn­ar fengu síðan byr und­ir báða vængi þegar frétt­ir fóru að ber­ast af því verði sem ís­lensku sjáv­ar­út­vegs­fyr­ir­tæk­in greiddi til norskra skipa fyr­ir loðnu sem þau lönduðu á Íslandi.

Norskt/​ís­lenskt verð fyr­ir loðnu

Fyrstu töl­ur sem fregn­ir bár­ust af í viðskipt­um þess­ara vinaþjóða voru 140 kr./​kg Norðmönn­um til handa. Síðan fóru prís­arn­ir ört hækk­andi og náðu há­marki í lok veiðitíma­bils þeirra. Hæsta verð að mér er tjáð fyr­ir norsk­an farm sem ís­lenskt sjáv­ar­út­vegs­fyr­ir­tæki greiddi var 252 kr./​kg.

Í Fiskeri­bla­det frá 24. fe­brú­ar var meðal­verðið á vertíðinni til Norðmanna sagt 224 kr. Hæsta verð til norskra skipa sam­kvæmt blaðinu var 283 kr. sem er vel yfir lág­marks­verði á þorski í Nor­egi og á Íslandi. Vert er að geta þess að sam­kvæmt samn­ingi milli þjóðanna fá Norðmenn ekki tæki­færi til fylgja loðnunni lengra suður en til 64°30‘ norðlægr­ar breidd­ar og missa því að veru­legu leyti lang­verðmæt­asta hluta vertíðar­inn­ar sem var­ir í kring­um það tíma­bil sem há­marks­hrogna­fyll­ingu er náð, sem að öllu jöfnu ger­ist ekki fyrr en loðna er kom­in sunn­ar, síðan vest­ur með suður­strönd­inni og end­ar loks í Faxa­flóa og á Breiðafirði.

Íslenskt verð

Það verð sem ákveðið var af ís­lensku út­gerðunum í upp­hafi vertíðar hef­ur að sögn sjó­manna verið í kring­um 100 krón­ur pr. kg sem í sögu­legu sam­hengi er það hæsta sem um get­ur, en á sama tíma má vekja at­hygli á að afurðaverð á Jap­ans­markaði er í hæstu hæðum sem í raun var staðfest þann 9. mars í viðtali á mbl.is við Gunnþór Ingva­son, ánægðan fram­kvæmda­stjóra Síld­ar­vinnsl­unn­ar í Nes­kaupstað, þar sem hann upp­lýsti að heild­ar­út­flutn­ings­verðmæti loðnu­af­urða að meðtöld­um 10 þúsund tonna afla (reynd­ar 12.526 tonn sam­kvæmt norsk­um lönd­un­ar­töl­um) sem Norðmenn lönduðu hér­lend­is myndi nema á bil­inu 22-25 millj­örðum og fullt til­efni til að óska öll­um hags­munaaðilum til ham­ingju með vel heppnaða vertíð.

Upp­gjörið

Þegar horft er til fyrri vertíða þá hef­ur það átt sér stað hjá ákveðnum út­gerðum, þó alls ekki öll­um, að þær greiði áhöfn­um sinna skipa leiðrétt­ingu á afla­hlut, reyn­ist end­an­legt afurðaverð hærra en áætlað hafði verið á vertíðinni. Í gegn­um tíðina meðan kvót­inn hljóðaði upp á mörg hundruð þúsund tonn var eðli­lega mun meiri óvissa með skila­verð á afurðum sem leiddi til þess að sjó­menn vildu frem­ur fá lo­ka­upp­gjör byggt á áætluðu verði frá út­gerðinni frem­ur en að geta átt von á bak­reikn­ingi ef í ljós kæmi lækk­un afurðaverðs frá áætl­un­um út­gerðar. Á þeirri for­dæma­lausu vertíð sem nú sér fyr­ir end­ann á blas­ir við að eft­ir­spurn er mun meiri en fram­boðið, sára­lítið af heild­arafl­an­um fór í bræðslu, bróðurpart­ur­inn er fryst­ar afurðir auk þess sem vel tókst til með hrogna­fryst­ingu og meðal­verð á kílóið hjá Norðmönn­um var 224 kr. án mik­ill­ar aðkomu þeirra að hrognaloðnu, sem er sem áður seg­ir verðmæt­asta afurðin.

Það er því næsta víst að það skipta­verð sem lagt er til grund­vall­ar fyr­ir afla­hlut sjó­manna hlýt­ur að vera mjög var­lega áætlað, svo ekki sé dýpra í ár­inni tekið. Vert er að nefna að, að þessu sinni tek­ur í það minnsta ein út­gerð fram í sín­um verðsamn­ingi að tekið verði til­lit til end­an­legs afurðaverðs við launa­upp­gjör henn­ar sjó­manna, sem er þeirri út­gerð til sóma og ætti að verða öðrum út­gerðum til eft­ir­breytni.

Ljóst er að góðar tekj­ur sjó­manna á vertíðinni eru byggðar á hluta­skipta­kerfi sem tryggja skal þeim ákveðið hlut­fall af afla­verðmæti hvort sem verð á afurðum er lé­legt eða frá­bært og þar af leiðir að end­an­legt launa­upp­gjör sem byggt er á bráðabirgðaverðákvörðunum af hálfu út­gerða ætti ekki að eiga sér stað að þessu sinni í það minnsta, þar sem all­ar for­send­ur hníga til þess að end­an­legt afurðaverð liggi nú þegar eða mjög fljót­lega ljós fyr­ir.

Nán­ar um málið
í Morg­un­blaðinu
Áskrif­end­ur:
Nán­ar um málið
í Morg­un­blaðinu
Áskrif­end­ur: