Tugir gáma af hveljum óseldir

Ásbjörn Jónsson, framkvæmdastjóri Fiskkaupa hf.
Ásbjörn Jónsson, framkvæmdastjóri Fiskkaupa hf. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Það er nú mik­il óvissa með grá­slepp­una eins og eig­in­lega á hverju ári,“ seg­ir Ásbjörn Jóns­son, fram­kvæmda­stjóri Fisk­kaupa hf., beðinn um að gefa álit sitt á kom­andi grá­sleppu­vertíð. Gefið hef­ur verið út að vertíðin fari af stað 23. mars, en veiði hefst ekki í Breiðafirði fyrr en 20. maí. Mik­il óvissa rík­ir um vænt­an­legt afurðaverð sem Ásbjörn tel­ur lík­legt að lækki veru­lega miðað við þróun verðs frá síðustu vertíð.

„Verðið sem við keypt­um á í fyrra var miklu hærra en það sem við feng­um. Það lækkaði mikið verðið á grá­slepp­unni í fyrra eft­ir að við vor­um búin að kaupa,“ út­skýr­ir Ásbjörn og seg­ir óraun­hæft að horfa til þess verðs sem grá­sleppu­sjó­menn fengu í fyrra og spá um vertíð árs­ins. „Það var mik­il lækk­un á sölu­verði hrogn­anna í fyrra og það sést í út­flutn­ingstöl­um.“

Spurður hvort þessa stöðu sem skapaðist í fyrra megi rekja til kór­ónu­veirufar­ald­urs­ins svar­ar Ásbjörn því ját­andi enda hafi far­ald­ur­inn haft áhrif til lækk­un­ar á verði flestra ef ekki allra sjáv­ar­af­urða. „Veit­ingastaðir eru til dæm­is enn lokaðir í Evr­ópu. Áhrif­in eru ennþá rosa­leg og ófyr­ir­séð hvernig þetta verður hrein­lega.“

Vill eng­inn kaupa hvelju

Kristján Þór Júlí­us­son sjáv­ar­út­vegs- og land­búnaðarráðherra und­ir­ritaði reglu­gerð um veiðarn­ar að kvöldi þriðju­dags og fel­ur nýja reglu­gerðin í sér heim­ild grá­sleppu­sjó­manna til að fleygja grá­sleppu­skrokk­un­um frá borði eft­ir að hafa hirt hrogn­in.

Ásbjörn seg­ir erfitt að koma hvelj­unni í verð. „Grá­slepp­an er 70% skrokkk­ur og 30% hrogn og við erum enn með tugi gáma af hvelj­um sem eru óseld­ar frá í fyrra,“ seg­ir hann og bend­ir á að nokk­ur þúsund tonn séu óseld í Kína frá síðustu vertíð. Ásbjörn seg­ir margt benda til þess að ekki fá­ist hátt verð fyr­ir hrogn­in og hefði það verið al­veg ör­uggt ef ekki feng­ist heim­ild til að henda hvelj­unni í sjó­inn.

Ekki þykir góð lausn að koma grá­slepp­unni í bræðslu að sögn Ásbjarn­ar. „Það er svo mik­ill kostnaður við að koma henni í bræðslu, að keyra hana. Það vill eng­inn borga fyr­ir hana,“ út­skýr­ir hann. Þá sé einnig mjög dýrt að farga grá­slepp­unni ef grá­sleppu­sjó­mönn­um yrði gert að koma með hvelj­una að landi.

Fram kem­ur í til­kyn­ingu sem birt var á vef Fiski­stofu í gær að stofn­un­in geri ráð fyr­ir að hefja mót­töku um­sókna um leyfi til grá­sleppu­veiða í dag. Leyfi verða gef­in út fyr­ir 25 sam­fellda veiðidaga og verða þau bund­in við ákveðin svæði og veiðitíma­bil, en veiðisvæðin verða sjö tals­ins.

Í Morg­un­blaðinu á þriðju­dag kom fram að sum­ir grá­sleppu­sjó­menn væru sann­færðir um að grá­slepp­unni yrði á end­an­um komið í kvóta, með samþykkt frum­varps þess efn­is, og að þeir þess vegna hygðust sækja á miðin til að tryggja sér veiðireynslu þrátt fyr­ir lágt verð.

Nán­ar um málið
í Morg­un­blaðinu
Áskrif­end­ur:
Nán­ar um málið
í Morg­un­blaðinu
Áskrif­end­ur: