Embætti ríkislögmanns hefur gert samkomulag við fjóra fyrrverandi starfsmenn Hafrannsóknastofnunar um greiðslu bóta vegna starfsloka þeirra hjá Hafrannsóknastofnun.
Starfsmennirnir voru í hópi þeirra sem sagt var upp störfum hjá Hafrannsóknastofnun í nóvember árið 2019. Fá starfsmennirnir fyrrverandi alls 11.985.407 krónur í bætur vegna starfsloka hjá stofnuninni auk lögmannsþóknunar að fjárhæð 3.848.375 kr. eða samtals 15.833.782 kr. að því er fram kemur í svari ríkislögmanns við fyrirspurn Morgunblaðsins.
Samkomulagið er gert í kjölfar dóms Héraðsdóms Reykjavíkur í desember síðastliðnum þar sem íslenska ríkið var dæmt til að greiða fyrrverandi fiskifræðingi hjá Hafrannsóknastofnun 3,5 milljónir króna í skaða- og miskabætur vegna ólögmætrar uppsagnar hjá stofnuninni í nóvember 2019 og 1,8 milljónir króna í málskostnað.
Í dómi héraðsdóms var uppsögn hans sögð vera haldin verulegum annmarka og hafi valdið starfsmanninum ekki einvörðungu skaðabótaskyldu tjóni heldur jafnframt vegið að æru hans og persónu.