„Frústrerandi“ að reyna að halda veislu í miðjum heimsfaraldri

Ólafur Aðalsteinsson, Anna Guðlaug og Arna Guðlaug Einarsdóttir á fermingardegi …
Ólafur Aðalsteinsson, Anna Guðlaug og Arna Guðlaug Einarsdóttir á fermingardegi Önnu Guðlaugar.

Arna Guðlaug Einarsdóttir kökuskreytingameistari þurfti að fresta fermingu dóttur sinnar tvisvar og var því mjög glöð yfir að fermingarfötin hefðu passað þegar fermingin var loks haldin í ágúst. Hún ætlar að halda stóra flotta veislu í maí á þessu ári ef ástandið leyfir það. 

Arna Guðlaug rekur sitt eigið fyrirtæki og er því í góðri æfingu í að gera kökur. Í fyrra fermdu hún og Ólafur Aðalsteinsson maður hennar; dótturina Önnu Guðlaugu Ólafsdóttur.

Arna Guðlaug segir kórónuveiruna hafa mikil áhrif á viðskiptin hjá sér, en að þau hafi getað haldið litla sæta fermingarveislu í fyrra.

„Fermingin átti upphaflega að vera um miðjan apríl. En henni var frestað tvisvar vegna kórónuveirunnar. Að lokum ákváðum við að ferma þann 23. ágúst þrátt fyrir að geta ekki haldið stóra veislu á þeim tíma. Við héldum mjög litla veislu heima þann dag fyrir okkar allra nánustu og vorum svo heppin að það var æðislegt veður þannig að veislan endaði sem garðveisla. Séra Hjörtur Magni fermdi í Fríkirkjunni. Aðalveislan er enn eftir og ætlum við að hafa hana í maí á þessu ári.“

Ánægð með fötin sem pössuðu

Arna Guðlaug segir fermingardaginn hafa verið afslappaðan. Enda var veislan lítil og fermingin klukkan tvö að degi til.

„Við höfðum því nægan tíma og var lítið sem ekkert stress sem fylgdi deginum. Heiða vinkona mín, sem er bæði förðunarfræðingur og hárgreiðslumeistari kom til okkar um morguninn og farðaði og greiddi Önnu. Fermingardagurinn var að öllu leyti alveg yndislegur. Við vorum mjög glaðar þegar kjóllinn sem hafði verið keyptur í upphafi árs passaði enn þá en við höfðum heyrt um marga sem höfðu stækkað upp úr fermingardressinu sínu. Ég keypti falleg blóm í hárið í Garðheimum. Ég vissi ekki fyrr en við komum í kirkjuna hversu margir táningar yrðu fermdir þennan dag en þau voru fimm talsins.“

Hún segir Önnu dóttur sína hafa treyst mömmu sinni fullkomlega þegar kom að kökunum.

„Hún veit að ég er með puttann á púlsinum þegar kemur að kökum og kökuskreytingum.“

Hvað er í tísku tengt fermingarkökum núna?

„Hvað viðkemur kökum eru kökur með svokölluðu „rustic lúkki“ og lifandi blómum vinsælastar. Fyrir nokkrum árum voru sykurmassaskreyttar kökur mjög í tísku og þá var skreytingin oft tengd áhugamálum fermingarbarnsins. Í kjölfar kórónuveirunnar varð allt einfaldara og íburðarminna en afskaplega fallegt í einfaldleika sínum.“

Hvernig var að halda upp á fermingu í miðjum faraldri?

„Það var mjög „frústrerandi“ að reyna að halda og skipuleggja fermingu í miðjum heimsfaraldri. Í upphafi var maður þó alltaf frekar bjartsýnn á að þetta færi nú að verða búið en eftir að hafa þurft að fresta nokkrum sinnum og þrjár bylgjur kórónuveirunnar, þá varð maður bara að taka einn dag í einu.

Við ákváðum að Anna myndi fermast þrátt fyrir að geta ekki haldið stóra veislu á þessum tíma.“

Arna Guðlaug segir að staðurinn þar sem fermingin er haldin, hafi mjög oft áhrif á hvaða veitingar verða fyrir valinu.

„Þeir sem kjósa að halda veisluna í veislusal fá oft val um mismunandi rétti frá staðnum. Nú þarf maður oft að grípa tækifærið þegar það gefst og því erfitt að skipuleggja langt fram í tímann. Kjúklingasúpa með ýmiss konar brauðmeti og svo einhvers konar sætabrauð á eftir er mjög vinsælt í fermingum um þessar mundir. Enda auðvelt að gera súpur með stuttum fyrirvara.“

Þurfum að vera sveigjanleg í dag

Hún segir ómissandi að fara í ljósmyndatöku og leituðu þau til Heidu HB Photography.

„Dagurinn var svo skemmtilegur og andrúmsloftið svo afslappað. Við fengum æðislega myndabók en við áttum í stökustu vandræðum með að velja myndirnar; þær voru allar svo fallegar. Anna var bæði í fermingarkjólnum og í öðrum fallegum sumar kjól. Svo fékk Perla hundurinn okkar að vera með á nokkrum myndum jafnframt fékk hún smá einkamyndatöku. Við munum klárlega panta hjá Heidu HB aftur en næsta ferming hjá okkur verður árið 2022 ef allt gengur upp vegna kórónuveirunnar. Í dag þarf maður að vera sveigjanlegri en oft áður. Þó að dagurinn í dag sé góður getur skjótt skipast veður í lofti og kórónuveiran stungið sér niður án fyrirvara. Ég held að sveigjanleiki sé orð dagsins fyrir fermingarnar í ár.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur: