Viktor Sveinsson er ekki í Þjóðkirkjunni en á dóttur sem er að ganga í gegnum skírn og fermingu núna í vor. Hann styður ákvörðun hennar og tekur þátt í undirbúningi af fullum krafti. Hann er átta barna faðir sem býr einn með fjórum yngstu börnum sínum í Hveragerði. Fjölskyldan á einn kött og tíu hænur og fer vel um þau í bænum.
Síðastliðin 25 ár hefur hann unnið við ferðaþjónustu en í dag vill hann titla sig heimavinnandi húsföður. Hann á fimm dætur, þrjá syni og tvö barnabörn.
„Það stóð aldrei til að Ásta myndi fermast. Ég hafði í raun unnið að því í mörg ár að Ásta færi ekki þessa hefðbundnu leið því hvorki ég né móðir hennar tilheyrðum kirkjunni og ég var persónulega ekkert heillaður af fermingum yfirhöfuð. Ég hafði reynt að styrkja ásetning Ástu um að fermast ekki með því að heita henni ferðalagi sem við tvö færum í á sama tíma og vinir hennar væru að fermast. Í mörg ár stefndum við að ferð til Parísar. Það var draumastaður Ástu en svo féllum við fyrir sjónvarpsþáttaröðinni Anne with an E sem eru sömu sögur og þekkjast sem Anna frá Grænuhlíð og ákváðum að fermingarferðin hennar yrði til Prince Edward-eyju við austurströnd Kanada. Við vorum búin að plana flug til Boston og að fara svo akandi norður til Kanada og enda ferðina í Halifax þaðan sem flogið yrði heim. Vegna kórónuveirunnar hafa flest flug fallið niður og í raun er ómögulegt að plana nokkrar svona ferðir en vonandi breytist það í lok ársins.“
Viktor segir að hann hafi ekki fundið sinn stað í Þjóðkirkjunni og því sagt sig úr henni fyrir rúmum 20 árum.
„Fyrst og fremst vegna þess að ég tilheyrði engum félagsskap og fannst því rangt að ég væri skráður í alvarlegan og margslunginn félagsskap án þess að hafa valið það eða væri á nokkurn hátt að taka þátt í starfinu. Mér fannst ég í raun hafa sýnt kirkjunni virðingu með því láta afmá mig af þeirra listum, að listi sóknarbarna ætti að sýna hverjir í raun hefðu ákveðið að vera þar. Þetta var rétt fyrir 1.000 ára afmæli kristni á Íslandi og ég var með þá hugmynd að réttast væri fyrir kirkjuna að brenna sína lista yfir sóknarbörn og hefja trúboð og að einungis væru þeir skráðir sem óskuðu þess. Það hefði verið magnað átak og skilað fámennari en vonandi sterkari kirkju.“
Viktor er sáttur við ákvörðun Ástu um að fermast og segir hann undirbúninginn nú þegar hafinn.
„Ásta og ég ætlum sjálf að gera mest af veitingunum fyrir veisluna. Ásta er mikill bakari auk þess sem hún er lipur við matseld. Við erum ekkert að fara að keppast við að hafa þessa veislu með einhverjum instagram-lífsstílsmatar-bloggara brag. Bara einfalt og gott. Brauðtertur, kransakaka, rjómatertur og svo eitthvað með asískum brag; salöt, vorrúllur, grillpinnar og annað sem Jintapat, systir Ástu, mun hjálpa okkur með.“
„Ásta hefur ákveðnar skoðanir varðandi útlitið og hefur fyrir löngu valið sér hárgreiðslu. Ég bauðst til að hjálpa henni með það og förðunina en hún tekur dræmt í þær tillögur svo við höfum bókað Jóhönnu, hárgreiðslukonu hjá Ópus hér í Hveragerði, til að greiða henni og mætir hún eldsnemma til hennar á fermingardaginn svo allt verði fullkomið. Við eigum ennþá eftir að finna út með förðunina.
Ásta fermist á hvítasunnudag sem er 23. maí. Laugardaginn á undan eigum við eftir að vera á fullu að elda og undirbúa á Hjarðarbóli í Ölfusi þar sem veislan mun fara fram.“
Viktor segir að þótt hann reyni að ala dóttur sína upp þá fari hún sínar eigin leiðir.
„Þessi ferill með Ástu, frá því að hún ætlaði ekki að fermast og til þess að hún skírist og síðan fermist, hefur verið áhugaverður. Ég hef ekki verið henni auðveldur, vildi aldrei leyfa henni að ákveða svona stóra breytingu án þess að hugsa allt sem best, en um leið hef ég minnt mig á að leyfa henni að hafa lokaorðið því hún hefur þroska til að ákveða þetta sjálf.“