„Ég reyni eftir fremsta megni að kaupa engan óþarfa“

Harpa Heimisdóttir og Georg Ari
Harpa Heimisdóttir og Georg Ari mbl.is/Árni Sæberg

Harpa Heimisdóttir, arkitekt hjá Basalt arkitektum, vildi hafa fermingarveislu sonar síns eins náttúrulega og völ var á. Hún fann skraut úti í náttúrunni og á nytjamörkuðum.

Harpa er að leggja lokahönd á teikningar af frístundahúsi úti á landi. Eins sinnir hún verkefnum sem tengjast ferðaþjónustunni. Hún hefur að undanförnu einnig verið að taka heimili sitt hægt og rólega í gegn, sem fylgjast má með á síðu hennar, Basement three, á Instagram. Harpa er fagurkeri og margt sem hún gerir er með náttúrulegu yfirbragði. Sonur hennar, George Ari, fermdist 30. ágúst í fyrra, en veislan var haldin 13. september. Fermingin átti upphaflega að eiga sér stað í apríl.

„George Ari er ótrúlega flottur og skemmtilegur drengur sem veit hvað hann vill. Hann fermdist hjá Siðmennt og við vorum virkilega ánægð með athöfnina sem var hvort tveggja fræðandi og skemmtileg. Við fengum að halda veisluna á vinnustað pabba hans og vorum svo heppin að hún var tímasett þegar smávegis kórónuveirulægð var yfir landinu. Okkar nánustu gátu því öll komið. Dagurinn var virkilega skemmtilegur og fermingardrengurinn alsæll.“

Notaði alls konar náttúrulega skrautmuni

Umgjörð fermingarinnar var falleg.

„Ég vildi ekki kaupa neitt einnota og ekkert sem mig langaði ekki að eiga eftir veisluna. Ég notaði alls kyns skrautmuni sem ég fyrir, keypti á nytjamörkuðum eða fékk lánaða. Ég fór í göngutúr í Öskjuhlíðina, sem er rétt hjá heimili mínu, til að finna greinar og stráin fann ég í fjörunni fyrir neðan Öskjuhlíðina.“

Hvernig veitingar varst þú með?

„Fermingarbarnið vildi bjóða upp á hamborgara, sushi og kjúklingavængi sem við keyptum tilbúið, en kökurnar sáum við um sjálf. Fermingarkakan var uppáhaldskaka fermingarbarnsins, sem amma hans bakar fyrir öll góð tilefni, og svo bættum við hrískökubollakökum, kleinuhringjum, makkarónum og sælgæti við.“

Þar sem þú starfar sem arkitekt væri gaman að heyra skoðun þína á uppsetningu og aðföngum í veislur? „Það er mér alltaf mikilvægt að hráefnin sem ég nota, hvort sem það eru byggingarefni eða matvæli, séu sem náttúrulegust. Það er nánast ómögulegt að fá slæma útkomu ef góð efni fá að njóta sín.“

Að hafa fermingarbörnin með í ráðum

Harpa segir að umhverfið sé henni ávallt ofarlega í huga.

„Ég reyni eftir fremsta megni að kaupa engan óþarfa. Að kaupa endingargóða hluti þegar þess þarf, gjarnan á nytjamörkuðum, og þegar ekki eru lengur not fyrir hlutina, til dæmis fatnað og leikföng barnanna, þá reyni ég að finna sem bestan farveg fyrir endurnýtingu eða endurvinnslu þeirra. Í vinnunni reynum við alltaf að nota eins umhverfisvæn efni og verkefnin bjóða upp á og þess má geta að frístundahúsið sem ég er að vinna að núna verður Svansvottað.“ Harpa er á því að í dag sé mjög margt í tísku. „Allt frá því að vera með ákveðið litaþema yfir í að blanda alls konar hlutum saman. Ég er bara búin að láta ferma eitt barn þannig að ég hef ekki alveg samanburð frá fyrri árum, en mér finnst áberandi að fermingarbörnin séu höfð með í ráðum og tekið sé tillit til þess sem þau vilja.“

Áttu gott ráð fyrir þá sem vilja skreyta en vilja ekki kaupa þetta hefðbundna skraut?

„Algjörlega að leita út í náttúruna. Vorið og haustið bjóða bæði upp á svo mikla fegurð, alveg ókeypis. Og síðan bara nota það sem er til og fá lánað hjá vinum og ættingjum.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur: