Á aðalfundi Brims hf. sem fram fór fyrr í dag var samþykkt að greiða skyldi arð á árinu 2021 vegna rekstrarárs 2020 upp á 1,2 krónur á hlut til hluthafa. Alls munu arðgreiðslur Brims hf. því nema 2.305 milljónum króna.
Nemur arðgreiðslan 2,4% af markaðsvirði hlutafjár í lok árs 2020 og verður arðurinn greiddur út í lok apríl.
Stjórn félagsins var sjálfkjörin þar sem jafn margir voru í framboði og sæti í stjórn eru. Þá var þóknun fyrir stjórnarsetu samþykkt. Þóknunin hljóðar upp á 310 þúsund krónur fyrir stjórnarsetu, varaformaður fær einn og hálfan hlut og formaður tvöfaldan. Greitt er sérstaklega fyrir nefndasetu.
Stjórn Brims hf. skipa: Anna G. Sverrisdóttir, Hjálmar Þ. Kristjánsson, Kristján Þ. Davíðsson, Kristrún Heimisdóttir og Magnús Gústafsson.
Stjórnin hefur skipt með sér verkum og skipað í nefndir. Formaður stjórnar er Kristján Þ. Davíðsson og varaformaður stjórnar er Anna G. Sverrisdóttir.
Aðalfundur veitti stjórn félagsins heimild til að kaupa eigin hluti í félaginu. Heimildin stendur í 18 mánuði og takmarkast við að samanlögð kaup fari ekki yfir 10% af heildarhlutafé félagsins á hverjum tíma.