Strákar, við siglum ekki án sjókorta

Tvíburabræðurnir Baldvin (t.v.) og Vilhelm Þorsteinssynir í Hlíðarfjalli.
Tvíburabræðurnir Baldvin (t.v.) og Vilhelm Þorsteinssynir í Hlíðarfjalli.

Samningar um smíði nýs Vilhelms Þorsteinssonar voru fullfrágengnir 4. september 2018, en þann dag hefðu tvíburabræðurnir Baldvin og Vilhelm Þorsteinssynir orðið 90 ára. Báðir voru þeir þjóðkunnir aflaskipstjórar og feður þeirra Þorsteins Más forstjóra og Kristjáns, framkvæmdastjóra útgerðarsviðs Samherja. Baldvin lést 21. desember 1991 og Vilhelm hinn 22. desember 1993.

Kristján var spurður hvernig gamla skipstjóranum, föður hans, hefði orðið við ef hann hefði átt þess kost að heimsækja brú nýja skipsins:

„Hann sigldi með okkur á Baldvin Þorsteinssyni nýsmíðuðum yfir hafið 1992,“ segir Kristján. „Sá gamli fylgdist vel með þegar Steini [Þorsteinn Vilhelmsson, bróðir Kristjáns] setti stefnuna eins og GPS-mælirinn sagði honum, en þetta var pínulítið tæki. Pabbi gekk um gólf í brúnni í smástund áður en hann sagði: „Strákar, ég ætla ekki að sigla með ykkur yfir hafið án þess að við höfum sjókort.“ Við fundum sjókort, hann stakk út leiðina og teiknaði sínar línur eins og hann var vanur.

Þegar við vorum hálfnaðir var skipið 30 mílum norðar en hann hefði siglt. Hann varð að viðurkenna að litla tækið var snjallara en hann hélt, því það fór sporbaug en hann beint. Litla tækið fór þar af leiðandi styttri leið.

Nú myndi ég halda að hann spyrði hvar sjókortin væru og svarið við því er að þau eru ekki til, það eru engin pappírskort um borð í Vilhelm. Við erum hins vegar með tvöfalt ECDIS-korta-tölvukerfi með innbyggðum korta- og botnupplýsingagrunni. Það teiknar upp leiðina og gerir það ekki bara miðað við hafflötinn heldur sneiðir fram hjá grunnum og skerjum. Í þeim skipum okkar sem hafa tekið þetta kerfi í notkun eru menn steinhættir að nota gömlu kortin,“ segir Kristján.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur: