Allir þeir grásleppusjómenn sem hafa í hyggju að hefja veiðar um páskana hafa nú aðeins tvo daga til að sækja um grásleppuleyfi, en umsóknir þurfa að berast Fiskistofu fyrir klukkan þrjú síðdegis á miðvikudag.
Fram kemur í tilkynningu á vef stofnunarinnar að veiðileyfi sem greiðist eftir 20:59 að kvöldi miðvikudags virkjast ekki fyrr en 7. apríl.
Margir biðu þess að hægt yrði að hefja veiðar, en vertíðin hófst 23. mars. Veður hefur hins vegar sett strik í reikninginn víða og lá meðal annars Aþena ÞH við bryggju á Húsavík er fréttaritari átti leið þar hjá um helgina. Enginn bátur Húsvíkinga hefur haldið til grásleppuveiða enn sem komið er.