Setur spurningamerki við kvótasetningu

Magnús Þór Hafsteinsson segir fjölda spurninga um kvótasetningu grásleppuveiða ósvarað.
Magnús Þór Hafsteinsson segir fjölda spurninga um kvótasetningu grásleppuveiða ósvarað.

Magnús Þór Hafsteinsson, fyrrverandi alþingismaður og ritari þingflokks Flokks fólksins, spyr í aðsendri grein í Morgunblaðinu í dag fjölda spurninga um meðferð aflaheimilda í grásleppu verði tegundin kvótasett. Spyr hann meðal annars hvernig tekið verði á málum með tilliti til veiða uppsjávarskipa, þar sem grásleppa getur hæglega verið meðafli.

Mikið hefur verið deilt um tillögu ríkisstjórnarinnar um kvótasetningu grásleppuveiða, en fjöldi grásleppusjómanna styðja frumvarp þess efnis.

Grein Magnúsar:

Vangaveltur um grásleppukvóta

Kristján Þór Júlíusson sjávarútvegsráðherra hefur lagt fram frumvarp um að kvóti verði settur á grásleppuveiðarnar. Heildarútgefnu aflamagni verði skipt með ákveðnum reglum milli þeirra sem hafa veiðireynslu. Frumvarpið er nú til meðferðar hjá atvinnuveganefnd Alþingis. Þegar umsagnir um það eru lesnar á vef þingsins má sjá að þetta er umdeilt mál. Hér er þó ekki ætlunin að fara út í þá sálma heldur langar mig til að ræða nokkur atriði sem ég hef velt vöngum yfir. Ég fæ ekki séð að nokkur nefni þau svo neinu nemi í þessum umsögnum. Í umræðum þegar ráðherra mælti fyrir málinu í þinginu 20. janúar síðastliðinn var heldur ekkert minnst á þessi atriði sem ég velti vöngum yfir hér í þessu greinarkorni.

Hrognkelsi er stórmerkileg fisktegund sem hrygnir uppi í þaranum á vorin, en dvelur á öðrum tímum árs langt úti í hafi þar sem hún aflar fæðu í efstu lögum sjávar. Í úthafinu veiðast hrognkelsin sem meðafli í flotvörpuveiðum fiskiskipa sem eru að eltast við loðnu, síld, kolmunna og makríl. Í fyrrahaust lagði Inga Sæland, þingmaður og formaður Flokks fólksins, fram tvær fyrirspurnir til sjávarútvegsráðherra. Þar bað hún annars vegar um að fá upplýst um uppgefinn meðafla við flotvörpuveiðar, og hins vegar hringnótaveiðar íslenskra uppsjávarveiðiskipa frá 1. janúar 2018 til 30. september 2020. Hvað hrognkelsin varðar þá kom fram í svari ráðherra að alls hefðu verið skráð 158 tonn af þeim veidd í flotvörpur. Í hringnótina var meðafli hrognkelsa á sama tímabili aðeins 347 kíló. Þannig var skráður meðafli af grásleppu í flotvörpur á ofangreindu tímabili 455 sinnum meiri en í hringnót.

Grásleppulöndun á Árskógssandi.
Grásleppulöndun á Árskógssandi.

Fari hrognkelsin í kvóta sem deilt verði milli grásleppuútgerða má ætla að spilað verði úr því samkvæmt hugmyndafræði og leikreglum kvótakerfisins. Hafi uppsjávarskipin ekki aðgang að grásleppukvótum til að fóðra upp í meðaflann þá gætu þau lent í miklum vandræðum við að stunda veiðar. Þannig muni stóru útgerðarfyrirtækin sem eiga uppsjávarskipin þurfa að leigja til sín hrognkelsakvóta frá grásleppuútgerðunum. Annar möguleiki væri að breytingar yrðu gerðar á því frumvarpi sem nú liggur fyrir þannig að uppsjávarskip fengju úthlutað grásleppukvótum. Slíkt myndi eflaust mæta andspyrnu grásleppuútgerða sem þætti að tekið væri frá þeim af leyfilegum heildarafla hvers árs. Enn einn möguleiki er að útgerðir uppsjávarveiðiskipa yrðu að kaupa varanlegar heimildir af grásleppuútgerðum sem nota mætti þá til að mæta meðafla skipa þeirra.

Hvernig á svo að haga eftirliti með meðafla hrognkelsa um borð í uppsjávarskipum? Eigendur aflaheimilda í hrognkelsum hljóta að gera kröfur um að allur meðafli af grásleppu skuli skráður samviskulega af hlutlausum aðilum. Vandséð er hvernig slíkt fari fram um borð í uppsjávarskipum nema með eftirlitsmönnum, og þá á kostnað þeirra útgerða sem eiga þau skip.

Svo er það hvernig verðmyndun yrði háttað á grásleppukvótum? Þar má vænta að framboð og eftirspurn ráði för. Uppsjávarveiðarnar á síld, kolmunna, makríl og loðnu skila miklu aflaverðmæti. Enn og aftur: uppsjávarskipin munu trauðla getað stundað veiðar nema hafa aðgang að veiðiheimildum í hrognkelsum. Gæti myndast markaður seljenda þar sem meintir eigendur hrognkelsa við Ísland hefðu kverkatak á uppsjávarútgerðunum með kröfum um himinhátt verð fyrir grásleppukvóta?

Vera má að einhverjir hafi svör og lausnir á reiðum höndum við þessu öllu saman og þá væri upplýsandi að sjá þau.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur: