Svara erindi Samherja

Ríkisútvarpið við Efstaleiti.
Ríkisútvarpið við Efstaleiti. mbl.is/Kristinn Magnússon

Stjórn RÚV fundaði í dag meðal ann­ars um þá kröfu Sam­herja að Helga Selj­an verði meinað að fjalla um mál sem tengj­ast fyr­ir­tæk­in 

Sam­herji gerði mikl­ar at­huga­semd­ir í til­efni af úr­sk­urði siðanefnd­ar RÚV um um­mæli Helga Selj­an um fé­lagið og mál­efni þess á sam­fé­lags­miðlum. Þar sagði að úr­sk­urður­inn hefði eng­in áhrif á störf Helga, enda hefði þar ekki komið fram að hann hefði gerst brot­leg­ur í starfi í skiln­ingi laga. Sam­herji tel­ur það ekki stand­ast hjá stjórn­end­un­um og krefst þess að Helgi komi ekki að frek­ari um­fjöll­un um mál­efni fé­lags­ins.

Þetta kem­ur fram í bréfi, sem lögmaður Sam­herja sendi stjórn RÚV í gær. Þar er bent á að sam­kvæmt úr­sk­urðinum hafi Helgi gerst hlut­dræg­ur og „gengið lengra en sem nam því svig­rúmi sem hann hafði til að deila frétt­um og fylgja þeim eft­ir með gagn­rýn­um spurn­ing­um eða um­mæl­um, sam­bæri­leg­um þeim sem hann myndi viðhafa sem fréttamaður, jafn­vel þó slíkt væri gert í eig­in nafni“. Brot­in væru al­var­leg og ít­rekuð.

Fram kem­ur á Kjarn­an­um að til umræðu á stjórn­ar­fundi í dag hafi verið nið­ur­staða siða­nefnd­ar­inn­ar, end­ur­skoðun siða­reglna og bréf Sam­herja. 

Jó­hanna Hreiðars­dótt­ir, stjórn­ar­formaður RÚV, seg­ir við mbl.is að stjórn­in muni form­lega svara er­indi lög­manns Sam­herja á morg­un, miðviku­dag. 

mbl.is