Grásleppuútgerðir stofna hagsmunasamtök

Mikið hefur verið deilt um tilhögun grásleppuveiða og hafa þeir …
Mikið hefur verið deilt um tilhögun grásleppuveiða og hafa þeir sem styðja kvótasetningu stofnað eigin samtök grásleppuútgerða. mbl.is/Sigurður Ægisson

Unnið er að stofnun Landssambands grásleppuútgerða (LSG) og er hópurinn sem stendur að undirbúningnum sá sami og afhenti Kristjáni Þór Júlíussyni, landbúnaðar- og sjávarútvegsráðherra, stuðningyfirlýsingu frá meirihluta grásleppuleyfishafa vegna fyrirhugaðrar kvótasetningar grásleppuveiða.

Landssamband smábátaeigenda hefur hins vegar verið mótfallið hvers kyns hugmyndum um kvótasetningu veiðanna og hafa staðið miklar deilur um málið meðal félagsmanna.

Fram kemur í tilkynningu frá aðstandendum nýju samtakanna að „hugmyndin að stofnun LSG hefur varað í nokkra mánuði og ljóst að þörfin fyrir alvörumálsvara grásleppuútgerða hefur farið vaxandi með degi hverjum. Mikill fjöldi leyfishafa hringinn í kringum landið hefur lagt ríka áherslu á slíka undirbúningsvinnu og telja aðilar nauðsynlegt að hagsmuna þeirra sem veiðarnar stunda, sé gætt af félagsskap þar sem lítil skörun sé á hagsmunum við ákvarðanir um stefnumótun.“

Aðstandendur LSG hvetja handhafa grásleppuveiðileyfa sem vilja taka þátt í stofnun samtakanna til að skrá sig á stofnfund sambandsins og vísa á Facebook-síðu þeirra. „Mikilvægt er að ráðuneyti sjávarútvegsmála, Alþingi og stjórnsýslan, hafi traustan hóp þeirra sem mestra hagsmuna hafa að gæta; til skrafs og ráðagerða um tilhögun grásleppuveiða og vinnslu til framtíðar,“ segir í tilkynningunni.

mbl.is