Bryndís Óskarsdóttir, ferðaþjónustubóndi í Skjaldarvík rétt fyrir utan Akureyri, sneri vörn í sókn þegar kórónuveirufaraldurinn byrjaði. Dísa eins og hún er kölluð bjó til föndursamfélag þegar illa áraði í ferðaþjónustunni og fá nú margir föndurverkefni frá henni á netinu í hverjum mánuði. Þegar nýjar sóttvarnareglur voru settar í síðustu viku ákvað hún að láta gott af sér leiða með ókeypis föndurdagatali fyrir fjölskyldur.
„Ég rek ferðaþjónustu og það er búið að vera mjög undarlegt ástand hjá okkur síðasta árið. Í staðinn fyrir að hella okkur í eymd og volæði finnst mér svo miklu skemmtilegra að nýta tímann í eitthvað skemmtilegt. Gistihúsið mitt hefur fengið mikla athygli fyrir það að ég reyni að nýta og nota allt sem fyrir mér verður. Ég grafískur hönnuður, matartæknir og markþjálfi. Ég reyni að koma þessu öllu til skila í gistihúsinu,“ segir Dísa sem segir að hún hafi alltaf verið óþolandi jákvæð og vill helst ekki taka þátt í neikvæðri umræðu um faraldurinn.
„Þegar allt fór í rugl í fyrra fór ég að búa til námskeið fyrir fólk þar sem ég kenndi því að búa til eitthvað skemmtilegt úr drasli. Ég kalla þetta Úr geymslu í gersemi þar sem aðalmarkmið námskeiða minna er að fólk hugsi aðeins meira út fyrir boxið, við eigum svo ótrúlega margt í geymslunum. Stundum þarf ekkert annað en að hugsa um hlutina á aðeins annan hátt til þess að gjörbreyta þeim,“ segir Dísa sem trúir því að sköpun hafi mikil áhrif á líðan fólks.
Föndurklúbburinn er auðvitað leið til að skapa nýjar tekjur á krefjandi tímum en á sama tíma er verkefnið hluti af spennandi framtíðarsýn Dísu.
„Ég þurfti bara að snúa við blaðinu. Ég mun vonandi hafa tekjur af ferðaþjónustunni aftur en ég sé fyrir mér að búa mér til starf án staðsetningar þannig að ég geti verið hvar sem er hvenær sem er þegar það er lokað hjá mér á gistihúsinu. Það er að segja þegar það verður hægt að fara að ferðast aftur.“
Dísa er með netklúbb þar sem áskrifendur fá verkefni í hverjum mánuði. Í klúbbnum er ekkert heilagt, klúbbmeðlimir hafa lært að búa til snyrtivörur úr hráefnum sem til eru í eldhússkápunum og svo hefur hún verið að kenna áskrifendum sínum að nýta gömul lök til þess að prenta á en þar kemur grafíska hönnunin Dísu vel. Hún hefur einnig kennt áskrifendum að búa til kort og pakkningar og annað til að mæta með í veislu eða afmæli. Það er líka farið inn á málningartækni og myndverk og fleira og fleira.
Dísa er einnig matartæknir og mikið matarnörd. Frá árinu 2010 þar til í fyrra rak hún matsölustað í Skjaldarvík. Hún býður líka upp á sniðug ráð um hvernig búa má til veislu án mikillar fyrirhafnar og án þess að eiga dýrasta stellið. Hún er með sniðug ráð fyrir páskaborðið í ár.
„Ég segi bara horfðu á hvað þú átt og hvernig þú getur notað það á annan hátt. Bara kassalaga glæri blómavasinn sem er ekki lengur smart úti í glugga og þú búin að eiga hrikalega lengi, kannski kominn ofan í geymslu. Snúðu honum á hliðina og settu salatið inn í hann og láttu það leka út. Settu svo eitthvað ofan á líka. Farðu í bókahilluna og finndu fallegustu bækurnar og notaðu þær sem hitaplatta eða hækkun fyrir eitthvað annað. Farðu niður í fjöru, gerðu úr þessu gæðastund, finndu flata steina og settu kryddsmjör eða pate á það. Notaðu það sem til er þannig að fólk gleymi því að þetta er ekki nýjasta stellið heldur er þetta skapandi og fólk fær eitthvað að tala um annað en að það megi ekki fara á milli landshluta. Mér finnst svo nauðsynlegt núna að við náum að gera eitthvað og njóta þess að vera til og vera ekki að velta okkur upp úr þessu sem allir hinir eru að velta sér upp úr.“
Dísa var orðin mjög spennt að taka á móti gestum um páskana en það breyttist heldur betur með nýjum reglum í síðustu viku. Dísu datt þá í hug að fara til Danmerkur þar sem hún á dætur og barnabarn. Eftir stutta umhugsun sá hún að það væri ekki fýsilegur kostur. Hún ákvað þá að láta gott af sér leiða og bjó til föndurdagatal handa börnum og fullorðnum sem er öllum frítt. Dagatalið er í anda jóladagatals með verkefnum í tíu daga.
„Svo opnast einn dagur í einu þar sem þú færð föndurhugmynd, uppskriftina og myndband. Þú getur strax farið að gera eitthvað,“ segir Dísa
Hvort sem um börn eða fullorðna er að ræða leggur Dísa áherslu á að njóta þess að vera í núinu og búa til eitthvað úr gömlum efnivið. Hún segir konur í föndurklúbbnum hafa tjáð henni að verkefnin hafi hreinlega bjargað geðheilsunni í faraldrinum.
„Þetta snýst um ferðalagið en ekki útkomuna. Í rauninni skiptir engu máli hvernig þetta lítur út ef þér líður vel á meðan þú ert að skapa, en auðvitað er skemmtilegast þegar vel tekst til og það er margt ótrúlega smart og fallegt sem fólk er að gera. Það er líka þannig að þegar þú ert að búa til eitthvað úr drasli þá skiptir ekki máli hvort það mistekst. Það má mistakast.“
Hægt er að gerast áskrifandi og fá aðgang að ókeypis barnaföndurdagatalinu á síðu Dísu, Disaoskars.is. Hún heldur einnig úti facebookhópi, Úr geymslu í gersemi, þar sem hún sáir skemmtilegum fræjum og fólk skiptist á föndursögum. Öllum er velkomið að ganga í hópinn.