Kolbrún Árnadóttir starfar í innflutnings- og bókhaldsdeild hjá Agli Árnasyni. Hún er mikil áhugamanneskja um ketó- og lágkolvetnafæði og heldur úti síðunni Ketóþjálfun á samfélagsmiðlum. Þar miðlar hún til fólks ketómatseðlum sem auðvelda fólki að ákveða hvað verður í matinn fyrstu vikurnar á mataræðinu.
„Ég hanna ketó- og lágkolvetnamatseðla fyrir fólk. Matseðlarnir eru fyrir fjórar, átta eða tólf vikur. Hver matseðill inniheldur morgunmat, hádegismat, millimál, kvöldmat og uppskriftir. Þessi þjónusta er lausn við þeim vanda sem ég stóð frammi fyrir á sínum tíma þegar ég var að taka mín fyrstu skref í lágkolvetna- og ketólífsstílnum.“
„Snilldin við að fjárfesta í svona tilbúnum matseðlum er sú að oft erum við hugmyndasnauð þegar kemur að nýjum lífsstíl og vitum ekki alveg hvað við eigum að fá okkur. Mig langaði að bjóða upp á lausn við því,“ segir Kolbrún.
Sjálf hefur hún verið á mataræðinu í fimm ár og því orðin talsvert þjálfuð í matseldinni.
Hvað verður á matseðlinum um páskana hjá þér?
„Í matinn hjá mér á páskadag verður klassísk svínapurusteik með rjómaostspiparsósu, blómkálsmús, ofnbökuðu rósakáli með beikoni og sveppum og heimalöguðu ketórauðkáli.“
Páskakaka
Botn:
3 egg
140 g möndlumjöl
90 g sykurlaus sykur
1 tsk kakó
1 tsk. kanill
½ tsk. lyftiduft
½ tsk. matarsódi
2 klípur maldonsalt
50 g brætt smjör
50 g rjómi
2 tsk. vanilludropar
Aðferð: Þurrefnin sett í skál og bræddu smjöri blandað við. Í annarri skál er eggjum, rjóma og vanillu blandað saman og svo bætt við þurrefnasmjörblönduna.
Bakið við 180° í 30-40 mínútur.
250 g rjómaostur (gott að hafa ostinn mjúkan)
2 eggjahvítur
100 g sykurlaus flórsykur
1-2 msk. sítrónusafi
Karamella:
1 dl rjómi
1 dl sukrin gold
20 g smjör
1 klípa maldonsalt
Aðferð: Látið hráefni malla saman í potti þar til falleg karamellubráð myndast. Gott er að kæla aðeins áður en sett er á kökuna til skrauts og bragðauka.