„Stress, kvíði og of miklar væntingar er ekki góð uppskrift“

Skemmtileg ljósmynd þar sem fjölskyldumeðlimum er raðað eftir hæð.
Skemmtileg ljósmynd þar sem fjölskyldumeðlimum er raðað eftir hæð. mbl.is/Hulda Margrét

Bryndís Harðardóttir veit fátt skemmtilegra en að gera skemmtilega hluti með fjölskyldunni. Dóttir hennar fermdist í fyrra á fallegum degi.

Fyrir utan að halda heimili og hlúa vel að fjölskyldunni okkar þá starfa ég sem yfirflugfreyja hjá Flugfélagi Íslands sem er óstjórnlega skemmtilegt, gefandi og oft á tíðum krefjandi starf. Ég huga vel að heilsu minni og stunda mjög fjölbreytta hreyfingu til að rækta sál og líkama ásamt því að vera klappstýra barnanna minna í þeirra tómstundum.“

Eiginmaður Bryndísar er Gunnar Aðalsteinsson, lofthæfissérfræðingur hjá Aero Design Global. Þau eiga þrjú börn saman, Thelmu sem fermdist í fyrra, Eydísi og Arnar.

Thelma sem fermdist í fyrra ásamt Eydísi og Arnari.
Thelma sem fermdist í fyrra ásamt Eydísi og Arnari. mbl.is/Hulda Margrét

„Upphaflega átti fermingin að vera í Garðakirkju í apríl þar sem börnin okkar voru skírð og við giftum okkur á skírnardegi Thelmu en vegna fjöldatakmarkana fermdist hún í Vídalínskirkju sem er miðsvæðis í Garðabæ stutt frá heimili okkar.

Fermingin var yndisleg upplifun fyrir alla fjölskylduna, dagurinn hefði ekki getað verið betur heppnaður þó að hann hafi ekki borið upp á upphaflegan fermingardag í apríl sem hefði líklega orðið mikið ævintýri þegar snjóstormur geisaði og Hellisheiðin var lokuð, þar sem stór hluti gestanna fer um. Þess í stað fengum við fullkominn sumardag í september með sól og blíðu og við nutum góða veðursins fram í fingurgóma með okkar nánustu í garðinum við heimili okkar.“

Öll fjölskyldan klæddi sig í stíl

Bryndís fann föt á alla á einum degi og segir að það hafi gengið eins og í sögu.

„Thelma vildi hvítan kjól og fundum við kjól fyrir hana snemma veturs sem var helst til stór á hana þá en passaði mjög vel þegar loksins kom að fermingunni. Litlu munaði að Arnar stækkaði upp úr sínum fötum en þetta rétt slapp þó að buxurnar hafi verið helst til of stuttar. Fötin sem við hjónin vorum í eru föt sem við höfum átt lengi og eru einföld, tímalaus og í miklu uppáhaldi hjá okkur.

Uppáhaldslitir mínir eru mjúkir jarðlitir, hvítur, blár, brúnn og bleikir tónar sem áttu vel við í vorfermingu og ekki síður á fallegum síðsumardegi í byrjun september.“

Það má taka fallega ljósmynd af foreldrunum líka.
Það má taka fallega ljósmynd af foreldrunum líka. mbl.is/Hulda Margrét

Hvaða máli skiptir að eiga fallegar fermingarmyndir frá deginum sjálfum?

„Myndir eru minningar sem eru svo dýrmætar. Við tókum mikið af myndum úti í garði heima hjá okkur á fermingardaginn sjálfan en sjálf fermingarmyndatakan var svo tveimur vikum síðar hjá Huldu Margréti ljósmyndara sem aðstoðaði okkur með mjög stuttum fyrirvara þar sem Gunnar fékk óvænt verkefni erlendis og áttum við yndislegan tíma í stúdíói hjá Huldu Margréti. Þar sem fyrirvarinn var mjög stuttur náðum við lítið að plana myndatökuna fyrirfram og settum við þetta allt í hennar hendur.

Hún skapaði dásamlegar fjölskylduminningar og getum við ekki beðið eftir næstu myndatöku við fermingu Eydísar. Eftir á að hyggja þá er myndatakan ekki síður mikilvæg en fermingardagurinn sjálfur. Ég mæli með að slá af kröfum fyrir ferminguna þegar kemur að öðrum kostnaðarliðum og fá fagljósmyndara til að fanga og innsigla þennan stóra dag í lífi barnanna okkar.“

Veislan haldin úti í garði

Bryndís segir að vegna kórónuveirunnar hafi einungis þeirra allra nánustu mætt í veisluna.

„Við buðum nánustu fjölskyldumeðlimum okkar og komu í kringum tuttugu til þrjátíu gestir að fagna fermingunni okkar. Við vorum búin að upplýsa alla að við hefðum frestað veislunni en ákváðum að lokum að aflýsa henni og héldum lítið fallegt boð sem heppnaðist vonum framar og fermingarbarnið var í sjöunda himni og hefði ekki viljað hafa daginn sinn neitt öðruvísi. Gunnar sá um að grilla ofan í gestina og buðum við upp á kalkúnabringur að ósk Thelmu ásamt íslensku lambakjöti með nóg af fersku og hollu meðlæti. Thelma bakaði og skreytti svo fallega súkkulaðiköku með vanillukremi. Í sameiningu bökuðum við svo marengstertu sem er fastur liður í öllum fjölskylduboðum hjá okkur. Við buðum einnig upp á kransaköku sem ég lærði að gera á kransakökunámskeiði veturinn áður.

Námskeiðið var bæði fræðandi og skemmtilegt. Kakan var ekki bara góð heldur líka hátíðleg og falleg borðskreyting sem erfitt er að standast. Hún var ætluð töluvert fleiri gestum þegar hún var upphaflega bökuð og verður afgangur hennar notaður við eitthvert frábært tækifæri.“

Fjölskyldan bregður á leik.
Fjölskyldan bregður á leik. mbl.is/Hulda Margrét

Minningarnar skipta mestu máli

Hún segir andrúmsloftið í kirkjunni hafa verið afslappað.

„Það var búið að skipuleggja þetta allt svo vel fyrir fram. Hver fjölskylda fékk ákveðinn fjölda sæta í kirkjunni og voru mjög skýrar leiðbeiningar hvorum megin í kirkjunni hvar fjölskylda sæti. Vegna veirunnar fengum við ekki að fara með fermingarbörnunum í rýmið þar sem þau klæddust kyrtlunum. Veðrið var dásamlegt svo hægt var að fara út með öll fermingarbörnin eftir athöfnina og fengum við þann tíma og næði sem við vildum til að taka myndir og fagna áfanganum með fjölskyldu sem gerði þetta svo einstakt. Thelma stóð sig eins og hetja þegar hún gekk til altaris en ekki var í boði fyrir foreldra að fylgja fermingarbörnum til altaris.“

Bryndís segir mikilvægt að leyfa fermingarbarninu að ráða för ef það vill og það sé í lagi að brjóta hefðir.

„Stress, kvíði og of miklar væntingar er ekki góð uppskrift að farsælum fermingardegi. Látlausar veislur þar sem einlægni og hjartað ræður för eru bæði hagkvæmar og skynsamlegar, sem er góð blanda og ávísun á ómetanlegar minningar.

Ég mæli með að bóka tímanlega ef planið er að fara í förðun og greiðslu. Við fengum ekki tíma í greiðslu um haustið en redduðum okkur bara sjálf. Við ákváðum að nýta sálmabók sem móðirin fermdist með á sínum tíma og létum setja nýja fermingardaginn inn í bókina og munu öll börnin fermast með sömu bókina sem gerir hana einstaka að okkar mati. Svo mæli ég alltaf með því að halda í gleðina þó allir hlutir gangi ekki fullkomlega upp. Þannig verða góðar sögur til.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur: