Heimaland áhafnar ráði kjörum í íslenskum skipum

Brúarfoss, skip Eimskips, er skráð í Færeyjum. Samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra …
Brúarfoss, skip Eimskips, er skráð í Færeyjum. Samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra hefur kynnt drög að frumvarpi sem á að stuðla að því að íslenskt kaupskip sigli undir íslenskum fána. mbl.is/Kristinn Magnússon

Sig­urður Ingi Jó­hanns­son, sam­göngu- og sveit­ar­stjórn­ar­ráðherra, legg­ur til í frum­varps­drög­um um ís­lenska alþjóðlega skipa­skrá að launa­kjör skip­verja um borð ís­lensk­um kaup­skip­um miðist við kjör í því landi þar sem um­rædd­ur skip­verji hef­ur lög­heim­ili. Mark­miðið er sagt vera að skapa sam­keppn­is­hæft rekstr­ar­um­hverfi á Íslandi fyr­ir kaup­skip.

Drög að frum­varpi um ís­lenska alþjóðlega skipa­skrá hef­ur verið birt í sam­ráðsgátt stjórn­valda, en mark­mið frum­varps­ins er að stuðla að því að flutn­inga­skip sigli í aukn­um mæli und­ir ís­lensk­um fána. Um­sagn­ar­frest­ur er 21. apríl.

„Helsti ávinn­ing­ur þess að kaup­skip sigli und­ir ís­lensk­um fána og falli und­ir ís­lensk lög er að tryggja vöru­flutn­inga til og frá land­inu og viðhalda eft­ir­spurn eft­ir skip­stjórn­ar­mönn­um, sigl­ingaþekk­ingu og reynslu hér á landi,“ seg­ir í til­kynn­ingu á vef stjórn­ar­ráðsins.

Þá sé mark­miðið með frum­varp­inu að „móta sam­keppn­is­hæft rekstr­ar­um­hverfi fyr­ir kaup­skipa­út­gerð, stuðla að skrán­ingu kaup­skipa á Íslandi og bregðast við alþjóðlegri sam­keppni um slík­ar skrán­ing­ar“. Bent er á að ekk­ert kaup­skip hafi verið skráð á Íslandi frá ár­inu 2004.

Sam­bæri­leg ákvæði er­lend­is

Við samþykkt frum­varps­ins er eldri lög­um skipt út en alþjóðleg skipa­skrá verður áfram aðskil­in frá al­mennri skipa­skrá. Þá seg­ir að frum­varpið bygg­ist að miklu leiti á gild­andi lög­um en nýj­um ákvæðum hafi verið bætt við. Meðal ann­ars er kveðið á um að kjör skip­verja í áhöfn kaup­skips fari eft­ir kjara­samn­ing­um sem gerðir hafa verið við stétt­ar­fé­lög viðkom­andi ríkja þar sem skip­verji á lög­heim­ili.

LNG skip Samskipa Kvitnos gengur fyrir fljótandi jarðgasi, er starfrækt …
LNG skip Sam­skipa Kvitnos geng­ur fyr­ir fljót­andi jarðgasi, er starf­rækt í Nor­egi og sigl­ir und­ir fær­eysku flaggi. Ljós­mynd/​Sam­skip

„Sá fyr­ir­vari er gerður að kjör og rétt­indi skip­verja verði aldrei lak­ari en þau sem mælt er fyr­ir um í samþykkt Alþjóðavinnu­mála­stofn­un­ar­inn­ar (ILO) um vinnu­skil­yrði far­manna frá ár­inu 2006 (MLC 2006) og Alþjóðaflutn­inga­verka­manna­sam­bandið (ITF) miðar við á hverj­um tíma,“ seg­ir í til­kynn­ing­unni og er bent á að sam­bæri­legt ákvæði sé að finna til að mynda í Nor­egi (Norsk In­terna­sjonalt Skips­reg­ister, NIS), en þar er heim­ilt að greiða er­lend­um áhafn­ar­meðlim­um laun sam­kvæmt kjara­samn­ing­um í heimalandi þeirra.

„Ljóst þykir að ef ætl­un­in er að fá kaup­skip skráð á ís­lenska alþjóðlega skipa­skrá er nauðsyn­legt að lög hafi að geyma sam­bæri­leg ákvæði,“ seg­ir í til­kynn­ing­unni.

Sam­hliða frum­varp­inu er fyr­ir­hugað að fjár­mála- og efna­hags­ráðherra mæli fyr­ir um frum­varp til laga um skatt­lagn­ingu kaup­skipa­út­gerða.

mbl.is