Athafnakonan Ingibjörg Stefanía Pálmadóttir fagnaði sextugsafmæli í gær, 12. apríl. Ingibjörg er alin upp í Hagkaupsfjölskyldunni og hefur lengi verið í sviðsljósi fjölmiðlanna. Eins og sjá má á myndum í myndasafni Morgunblaðsins hefur Ingibjörg ekkert breyst í fjölda ára.
Ingibjörg er þekkt fyrir sítt ljóst hár og afslappaða hárgreiðslu. Það er ekki óalgengt að sjá hana í gallabuxum og hettupeysu.
„Við fengum í strætó og fyrir bíómiðum og þess háttar,“ sagði Ingibjörg um uppeldið í tímariti Morgunblaðsins árið 2003. „En ég átti alltaf minn eigin pening vegna þess að ég vann á sumrin og oft á veturna líka, alveg frá því ég var barn. Hafði rosalega gott og gaman af því. Gerði allt sem hugsast gat í búðinni og vann í öllum deildum.“
Ingibjörg er gift Jóni Ásgeiri Jóhannessyni en þau gengu í hjónaband árið 2007. Þau kynntust á ráðstefnu erlendis og sagði Jón Ásgeir frá því að hjónabandið hefði ekki verið eitthvað Bónus og Hagkaup að sameinast heldur hefði ástin leitt þau áfram.