Ráðstefna eldis- og ræktunargreina breytir um nafn og mun nú heita Lagarlíf, en hét áður Strandbúnaður. Þetta er meðal þess sem fram kemur í fréttatilkynningu vegna fyrirhugaðrar ráðstefnu um eldi sem haldin verður 28. og 29. október í Reykjavík.
Vegna kórónuveirufaraldursins var ákveðið að fresta ráðstefnunni síðasta haust. „Með því var vonast til að Íslendingar hefðu náð þannig tökum á kórónuveirunni að mögulegt væri að halda fjölmenna ráðstefnu. Lagarlíf verður haldin á Grand hótel í Reykjavík,“ segir í tilkynningunni.
Þá segir að framleiðendur muni standa fyrir vinnufundi norrænna sérfræðinga í laxeldi 27. október í tengslum við Lagarlíf og eru viðfangsefnin „laxalús, ræktun á stórseiðum og fiskafóður framtíðar. Sérfræðingar frá Noregi, Svíþjóð, Danmörku, Finnlandi, Færeyjum og Íslandi munu halda fyrirlestra um allt það nýjasta sem er að gerast á þessum sviðum.“
Lagarlíf (áður Strandbúnaður) er nú fimm ára og voru það eigendur og stjórn ráðstefnunnar sem ákváðu að breyta nafni og vörumerki hennar, en nafnið á ensku mun áfram vera Aqua-Ice.