Saturday Night Live-grínistinn Pete Davidson er sagður hafa brotið sóttkví í Bretlandi um helgina. Davidson flaug til Bretlands frá Bandaríkjunum á fimmtudagskvöld en sást úti með kærustu sinni, Bridgerton-stjörnunni Phoebe Dynevor, á sunnudaginn.
Davidson hefði átt að vera í sóttkví þangað til á þriðjudag í það minnsta samkvæmt breskum landamærareglum að því er fram kemur á vef Daily Mail. Ferðalangar frá Bandaríkjunum þurfa að vera í tíu daga sóttkví. Hins vegar er hægt að stytta þann tíma í fimm daga að frátöldum komudegi með neikvæðu kórónuveiruprófi.
Davidson var myndaður við komuna á Heathrow-flugvelli á Englandi á fimmtudaginn. Parið sást úti að ganga á sunnudaginn auk þess sem þau fóru í matvöruverslun á sunnudagsmorgun. Davidson er sagður hafa flogið aftur til New York á mánudaginn.