Enginn sá hvað gerðist

Marek Moszczynski ásamt lögmanni sínum, Stefáni Karli Kristjánssyni, í dómsal.
Marek Moszczynski ásamt lögmanni sínum, Stefáni Karli Kristjánssyni, í dómsal. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Ég veit ekki hvað gerðist eða hvernig það gerðist því það sá það enginn,“ sagði Wieslaw Papacz, íbúi í húsinu við Bræðraborgarstíg sem fuðraði upp í eldsvoða 25. júní síðasta sumar. 

Marek Moszczynski, pólskur karlmaður á sjötugsaldri, er ákærður fyrir brennu, manndráp og tilraun til manndráps með því að hafa kveikt í á þremur stöðum í húsinu við Bræðraborgarstíg. Þrír létust í brunanum. Marek neitar sök en hann er metinn ósakhæfur samkvæmt yfirmati geðlækna.

Hegðaði sér undarlega

Wieslaw, sem bar vitni í gegnum síma í aðalmeðferð í máli gegn Marek í dag vegna þess að hann er í Covid-einangrun, sagði að hegðun Mareks hefði verið skrítin áður en eldurinn kom upp. Hann hafi labbað um ör og verið öðruvísi en áður.

mbl.is/Kristinn Magnússon

Hann hafi komið tvisvar inn til Wieslaw og nágrannakonu þeirra í húsinu, sagt eitthvað og farið út.

„Ég var að horfa á sjónvarpið og var á netinu og fór fyrir tilviljun fram og var í sjokki að sjá á hvaða stig eldurinn var kominn,“ sagði Wieslaw en hann fór fram úr herbergi sínu kannski klukkustund eftir að Marek kom þar í seinna skiptið. 

Haldið sofandi í mánuð

Hann fór fljótt aftur inn í herbergi og vildi fara út um gluggann en glugginn var of lítill og Wieslaw sá reykinn koma undir hurðina inn í herbergi hans.

„Ég ákvað að fara í gegnum ganginn, setti sæng á mig og fór þá leið. Það var erfitt að anda en ég náði að komast út,“ sagði hann.

Hann var með brunasár á höndum, baki og víðar eftir að hafa komist út. Hann dvaldi í tvo mánuði á spítala og var þar af haldið sofandi í mánuð. Hann hefur þurft að gangast undir húðágræðslu vegna sára sinna.

Spurður almennt um líðan eftir brunann sagði Wieslaw að hann færi til lækna, sjúkraþjálfara og sálfræðinga.

mbl.is