Bæta ekki við bátum í viðskipti

Vignir G. Jónsson ehf. á Akranesi.
Vignir G. Jónsson ehf. á Akranesi. Ljósmynd/mbl.is

Allmörg fyrirtæki víða um land taka við grásleppu og grásleppuhrognum á vertíðinni. Meðal þeirra er Vignir G. Jónsson ehf. á Akranesi, dótturfyrirtæki Brims, sem hefur unnið kavíar úr grásleppuhrognum í áratugi. Jón Helgason framkvæmdastjóri segir að staðan sé þannig núna að veiði sé mjög góð og fyrirtækið hafi ekki haft tök á að bæta við bátum í viðskipti. Fyrirtækið greiðir 130 krónur fyrir kílóið af heilli grásleppu.

„Við einbeitum okkur að því að taka sem lengst við grásleppu frá okkar viðskiptavinum, sem sumir hafa verið lengi hjá okkur. Eins og staðan er núna getum við samt engu lofað um hversu lengi við getum tekið á móti,“ segir Jón.

Fyrirtækið sker grásleppuna og saltar hrognin á Vopnafirði og á Akranesi og er sterkt á nærsvæðum þessara staða, en er einnig með báta í viðskiptum annars staðar að. Nú er unnið að því að salta hrognin og útbúa hráefni fyrir kavíarframleiðslu síðar á árinu.

Eins og fram kemur hér á síðunni eru einhverjir kaupendur farnir að kippa að sér höndum. Farið er að saxast á fjölda veiðidaga hjá mörgum og í byrjun vikunnar höfðu 14 bátar lokið vertíð.

mbl.is