Bærinn Castiglione di Sicilia á Sikiley á Ítalíu hefur bæst í hóp þeirra ítölsku bæja sem reyna nú að laða til sín fleiri íbúa með því að gefa eða selja hús í bænum á lágu verði. Bærinn hefur nú auglýst 900 eignir í bænum sem telur tæplega 3.000 íbúa.
Sum húsanna, sem eru í hvað mestri niðurníðslu, eru föl fyrir aðeins eina evru. Önnur hús sem eru í betra standi, jafnvel mjög góðu standi, fara ódýrt eða á um 4-5 þúsund evrur.
Castiglione di Sicilia er ekki fyrsti bærinn á Ítalíu sem ræðst í svona verkefni en Castropignano, Cinquefrondi, Mussomeli og Bivona ásamt fleirum hafa boðið ódýrt húsnæði undanfarin ár.
Verkefnið í Castiglione di Sicilia er þó það stærsta sem hefur verið ýtt úr vör og eru um 400 af þeim 900 eignum sem í boði eru í ágætu ástandi.
Antonio Camarda er bæjarstjóri í bænum og segir að mikilvægt sé að bjarga sögulegum húsum í bænum. Hann segir í viðtali við CNN Travel að bæjarstjórnin hafi fundið fyrir mikilli eftirspurn og erlendir fjárfestar hafi þegar haft samband.