Veita starfsmönnum hluti fyrir 180 milljónir

Starfsmenn Síldarvinnslunnar á landi og á sjó munu eignast 3,3 …
Starfsmenn Síldarvinnslunnar á landi og á sjó munu eignast 3,3 milljónir hluta í félaginu við skráningu þess á markað. mbl.is/Þorgeir

Starfsmenn Síldarvinnslunnar munu eignast 3,3 milljónir hluti í félaginu við skráningu þess á hlutabréfamarkað eða allt að 0,19% af útgefnu hlutafé. Ætla má að virði hlutana sé að lágmarki rúmlega 180 milljónir króna miðað við 55 króna lágmarksverð á hvern hlut í hlutafjárútboði vegna skráningarinnar.

Þetta er meðal þess sem fram kemur í tilkynningu á vef félagsins. Þar segir að stjórn Síldarvinnslunnar hafi samþykkt að „afhenda starfsmönnum félagsins framangreinda eigin hluti samhliða fyrirhuguðu hlutafjárútboði og verður miðað við útboðsgengi sem mun liggja fyrir að loknu útboðinu.“

„Með þessari aðgerð vill stjórn Síldarvinnslunnar hf. þakka starfsmönnum fyrir vel unnin störf hjá félaginu og undirstrika þann mikla styrk sem felst í öflugu starfsfólki, mikilvægi þeirra í velferð og árangri félagsins til framtíðar,“ segir Gunnþór Ingvason, forstjóri Síldarvinnslunnar.

mbl.is