Níu ára drengur komst í hann krappan á alþjóðaflugvelli Minneapolis-St.Paul í Bandaríkjunum á laugardaginn.
Ungi drengurinn fór upp á farangursbeltið í komusalnum og skömmu síðar var hann horfinn á bak við þykku svörtu gúmmíblöðkurnar sem skilja farangursbeltið í komusal frá hinu gríðarlega stóra völundarhúsi sem farangursgeymsla flugvallarins er.
Starfsfólk flugvallarins brást skjótt við og slökkti á beltinu í komusalnum, það var hins vegar orðið of seint því drengurinn var horfinn djúpt inn í hyldýpi farangursgeymslu flugvallarins.
Fimm mínútum síðar fannst loks drengurinn í flokkunarsal fyrir óeðlilegan farangur.
Brot úr leiðangri drengsins náðist á öryggismyndavélar sem sjá má hér að neðan.