Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, sagði á facebooksíðu sinni í gær að hann vonaði að hvorki almenningur né sjóðir í eigu almennings myndu „láta krónu“ í Síldarvinnsluna, en hlutafjárútboð félagsins hefst 10. maí nk.
Í færslunni spyr Ragnar hver staða lífeyrissjóða sé varðandi fjárfestingu í félagi sem stjórnað er af einstaklingum „sem liggja undir rökstuddum grun um peningaþvætti, skattaundanskot, launaþjófnað og mútur, í mörgum löndum. Sem hlýtur þá að flokkast undir skipulagða alþjóðlega glæpastarfsemi.“
Þá spyr Ragnar hvort að með hlutafjárútboðinu eigi að „veiða almenning inn í net útgerðarfyrirtækja“ til að skapa sátt um fiskveiðistjórnunarkerfið, að því er fram kemur í Morgunblaðinu í dag.
Þetta er ekki í fyrsta sinn sem Ragnar Þór tjáir sig um væntanleg hlutafjárútboð, en hann lagðist gegn því í fyrra að Lífeyrissjóður verslunarmanna tæki þátt í hlutafjárútboði Icelandair. Fjármálaeftirlit Seðlabankans gagnrýndi hvernig staðið var að þeirri sniðgöngu.