Eins og frægt er orðið eyddu Jennifer Lopez og Ben Affleck síðustu helgi saman í Montanaríki í Bandaríkjunum. Þau gistu á glæsilegum einkaklúbbi sem er alls ekki fyrir alla. Við erum að tala um einkaklúbb sem er aðeins fyrir útvalda. Hann heitir Yellowstone Club og er mjög vinsæll hjá stórstjörnum á borð við Eric Schmidt, stofnanda Google, Tom Brady og Gisele Bündchen, Bill Gates, Justin Timberlake og Ellen DeGeneres.
Ben Affleck á alpahús í Yellowstone Club, en söluverðmæti fasteigna á svæðinu er frá 250 milljónum og dýrustu alpahúsin fara á 3.500 milljónir. Síðan greiðist aukalega í klúbbinn, en árgjaldið er tæplega 35 milljónir íslenskra króna.
Yellowstone Club er afgirtur þjóðgarður fyrir fræga fólkið. Æðislegar skíðabrekkur, tveir golfvellir, veitingastaðir, fjallgöngur, heilsulindir, laxveiði, einstök náttúrufegurð, sælkeraveitingastaðir og einkakokkar, ef þess er óskað. Í fljótu bragði hljómar þetta alls ekkert ólíkt Íslandi. Hér að neðan eru nokkrar myndir af þessu VIP-svæði.