Fjórir grásleppubátar hafa rofið 100 tonna múrinn

Aþena ÞH er meðal þeirra fjögurra báta sem landað hafa …
Aþena ÞH er meðal þeirra fjögurra báta sem landað hafa yfir 100 tonnum af grásleppu. mbl.is/Hafþór Hreiðarsson

Fjór­ir grá­sleppu­bát­ar hafa rofið 100 tonna múr­inn á vertíðinni, en afli hef­ur í heild verið ein­stak­lega góður. Sigur­ey ST frá Drangs­nesi er afla­hæst með 110,3 tonn, Hlökk ST með 107,2 tonn, Aþena ÞH með 103,4 tonn og Rán SH hef­ur landað 100 tonn­um. Meðalafli á bát er sá hæsti í sögu grá­sleppu­veiða og stend­ur í 39 tonn­um, en í fyrra var meðalafl­inn á bát 26 tonn á allri vertíðinni.

159 hafa fengið leyfi til veiða og hafa 152 landað afla. Gera má ráð fyr­ir að þeim fjölgi lít­il­lega þegar veiðar mega hefjast í inn­an­verðum Breiðafirði. Um nokkra fækk­un er að ræða frá síðasta ári þegar alls landaði 201 bát­ur afla og árið 2019 voru bát­arn­ir 250. Lík­leg­asta skýr­ing­in á mik­illi fækk­un báta er verðlækk­un, en 2019 feng­ust um 330 krón­ur fyr­ir kílóið, 230 krón­ur í fyrra og al­gengt verð í ár var 130 krón­ur á kíló af óskor­inni grá­sleppu.

Heim­ilt var að hefja grá­sleppu­veiðar 23. mars og eft­ir breyt­ing­ar á reglu­gerð voru leyfðir 35 sam­felld­ir veiðidag­ar. Flest­ir hafa lokið vertíð nema á innra svæði Breiðafjarðar, þar sem veiðar mega hefjast á fimmtu­dag. Ráðgjöf Haf­rann­sókna­stofn­un­ar var upp á 9.040 tonn, þar af 22% á Breiðafirði. Afli er nú kom­inn í tæp­lega sex þúsund tonn. Í fyrra veidd­ust alls tæp 5.300 tonn.

Lang­flest­ir bát­ar, eða 61, hafa róið frá svæði E á Norðaust­ur­landi, en þaðan fóru 78 bát­ar á grá­sleppu í fyrra. 28 bát­ar hafa róið á svæði D frá Strönd­um og öðrum höfn­um við Húna­flóa eða 28 en voru 34 í fyrra.

Nán­ar um málið
í Morg­un­blaðinu
Áskrif­end­ur:
Nán­ar um málið
í Morg­un­blaðinu
Áskrif­end­ur: