Veiði- og ferðaklúbbur Fish Partner er nýjung á íslenskum veiðimarkaði. Með því að ganga í klúbbinn, sem heitir Veiðifélagar, fær fólk aðgang að fjölda veiðisvæða og kjaratilboðum á gistingu, mat og ýmiss konar varningi. Þá safna meðlimir punktum í formi veiðikróna.
Hér er kominn fram möguleiki fyrir fjölskyldur að komast ódýrt í veiði og samtvinna veiðina og ferðalag um landið. Upphafsmaður þessa er Kristján Páll Rafnsson, einn eigenda Fish Partner.
„Markhópurinn okkar er ótrúlega breiður. Veiðifélagar er leið fyrir fjölskyldur sem vilja fara að veiða einu sinni til tvisvar á ári, í vatn og með flotholt. Þetta er líka klúbbur fyrir lengra komna veiðimenn. En það sem mér finnst sérlega ánægjulegt í þessu er að möguleikar þeirra sem veiða sjaldnar eða eru að byrja aukast mjög með því að ganga í Veiðifélaga,“ segir Kristján Páll.
„Ég er búinn að vera með þetta í hausnum í nokkur ár og alltaf á „to do“-listanum. Það var búið að vera svo mikið að gera að það gafst aldrei tími. Svo kom Covidið og maður hoppaði bara hæð sína ef það barst tölvupóstur. Þannig að allt í einu var nægur tími. Við tókum þetta með trompi og það fóru nokkrir mánuðir í að safna saman veiðisvæðum og samstarfsaðilum,“ segir Kristján og upplýsir um leið að mikla undirbúningsvinnu hafi þurft til að klára málið.
Meðlimir í félagsskapnum Veiðifélögum greiða sex þúsund króna árgjald og fá þá aðgang að tólf veiðivötnum sem eru dreifð um nánast alla landshluta. Vötnin í Svínadal eru í þessum hópi, Vesturhópsvatn, Blautulón og Langavatn á Héraði, svo einhver séu nefnd.
Vildarklúbbur Veiðifélaga er einn sá stærsti á landinu að sögn Kristjáns. Þar má finna margvíslega gistimöguleika um allt land, fjölbreytta afþreyingu, verslanir og veitingastaði. „Við erum með yfir hundrað samstarfsaðila um allt land sem veita Veiðifélögum afslátt af sinni vöru og þjónustu.“
Afslættirnir eru ríflegir, frá 5% og upp í 40%, afar misjafnt eftir fyrirtækjum.
„Okkur finnst svo borðliggjandi að nýta þennan klúbb fyrir fjölskylduferð í sumar. Með inngöngu í klúbbinn er hægt að fara að veiða í einhverju af vötnunum sem Veiðifélagar hafa aðgang að. Kaupa svo gistingu á afslætti í gegnum vildarkerfið, ásamt fleiri afþreyingarkostum. Ekki má gleyma því að börn veiða frítt með Veiðifélaga.“
Kristján telur að klúbburinn höfði ekki síður til þess fólks sem er lengra komið í veiðinni. „Það fá allir þessi sömu kjör en við bjóðum líka betri kjör í vefsölunni okkar fyrir þau fjölmörgu veiðisvæði sem við erum með á leigu. Svo má ekki gleyma því að meðlimir safna veiðikrónum með kaupum á veiðileyfum. Veiðikrónur er svo hægt að nota til að greiða niður verð á öðrum veiðileyfum, eftir því sem krónurnar hlaðast upp.“
Skipulagðar veiðiferðir með reynsluboltum eru í boði fyrir félagsmenn og einnig námskeið og ýmiss konar viðburðir. Allt frá lærdómi um leyndardóma púpuveiði til skemmtiviðburða.
Hugmyndin að einhvers konar veiðiklúbbi hafði lengi verið í huga Kristjáns. Hann segir að rekja megi endanlegu útgáfuna til kynna sinna af ungverska flugfélaginu Wizz Air. „Ég hef flogið mikið með þeim í gegnum árin og þeir eru með mjög flottan vildarklúbb og það má í raun segja að eftir að hafa skoðað klúbbinn þeirra hafi viðskiptahugmyndin fæðst.“
Þeir sem vilja vera með í klúbbnum geta fundið allar upplýsingar inni á heimasíðunni Fish Partner.