Fimm tilboð í Freyju - eitt frá íslensku fyrirtæki

Áslaug Arna Sig­ur­björns­dótt­ir, dóms­málaráðherra, og Georg Lárus­son, for­stjóri Land­helg­is­gæsl­unn­ar, kynntu …
Áslaug Arna Sig­ur­björns­dótt­ir, dóms­málaráðherra, og Georg Lárus­son, for­stjóri Land­helg­is­gæsl­unn­ar, kynntu í mars áform um kaup á ný­legu varðskipi. Fimm tilboð hafa borsit vegna útboðsins. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Fimm tilboð hafa borist í útboði vegna væntanlegra kaupa Landhelgisgæslunnar á nýju varðskipi, að því er fram kemur í fréttatilkynningu. Þá voru tilboð opnuð í gær og er unnið að því að meta þau.

Tilkynnt var í mars um ákvörðun hafði verið tekin um kaup á nýju varðskipi fyrir Landhelgisgæsluna sem myndi leysa Tý af hólmi. Nýja skipið mun bera nafnið Freyja og hefur Landhelgisgæslan þegar tryggt sér einkarétt á skipsnafninu hjá Samgögnustofu. Gert er ráð fyrir að varðskipið Freyja verði komið til landsins fyrir næsta vetur.

Munur á tilboðunum

Tilboð danska félagsins Atlantic Shipping A/S var 1.100 milljónir íslenskra króna, en félagið hefur annast skipasölu frá árinu 1986 og sérhæfir sig í sölu skipa lengri en 25 metra.

Aðeins eitt íslenskt félag skilaði tilboði og var það frá C‐solutions ehf. og nam það 1.491 milljón króna. Félagið var stofnað 25. febrúar 2021 og segir í skráningu fyrirtækjaskrár að félagið annist heildverslun með tölvur, jaðartæki fyrir tölvur og hugbúnað. C‐solutions er í eigu Benedikts Jóns Þórðarsonar.

Þá gerði norska félagið Havila Shipping ASA tilboð sem nam 13,627 milljónum evra sem er jafnvirði um tveggja milljarða króna. Félagið var stofnað 2003 og rekur um 22 skip í verktöku bæði á Norðursjó og á Kyrrahafi.

Danska félagið Maersk Supply Service A/S  skilaði tilboði sem nemur  10 milljónum bandaríkjadala sem er jafnvirði 1.200 milljóna íslenskra króna. Félagið sérhæfir sig í þjónustu við orkuframleiðendur svo sem vindmyllugarða á sjó.

Þýska fyrirtækið United Offshore Support GmbH, sem sinnir ýmsum þjónustuhlutverkum við orkuiðnað á sjó, gerði tilboð sem nemur 1.753 milljónum íslenskra króna. Stór hluti af rekstri félagsins var áður undir Hartmann Offshore.

Uppfært klukkan 11:30 þann 21.05: Eigandi C-solutions segir í tölvupósti skráninguna hjá fyrirtækjaskrá ranga og að fyrirtækið annist „sölu á kerfum og ráðgjöf aðalega á svið sjávarútvegs“.

mbl.is