Forseti ICC, samtaka inúíta, lýsti yfir áhyggjum af bannvæðingu hvalveiða og annars konar takmörkunum á veiðirétti við norðurskaut. Hann fagnaði því að umhverfisvernd væri aftur á dagskrá ráðsins og ítrekaði að á norðurskautinu byggi fólk.
Hvalveiðar varða ekki einungis fæðu- og efnahagslegt öryggi frumbyggja norðursins heldur eru hvalveiðar hornsteinn menningararfs þeirra. „Menning okkar verður ekki bönnuð, um það eru engar málamiðlanir,“ sagði James Stotts í gegnum upptöku á ráðherrafundi Norðurskautsráðsins í dag.
Stotts spurði að lokum hvaða máli þátttaka skipti ef enginn hlustaði á rödd þeirra. Nú væri kominn tími á að nýta þekkingu frumbyggja ásamt vísindum, „við verðum ekki aðskilin frá fæðu okkar og menningu“.