Komin heim til Íslands eftir 20 tíma ferðalag

Hjónin Aron Einar Gunnarsson og Kristbjörg Jónasdóttir.
Hjónin Aron Einar Gunnarsson og Kristbjörg Jónasdóttir. Ljósmynd/K100

Hjónin Aron Einar Gunnarsson, landsliðsmaður í knattspyrnu, og einkaþjálfarinn Kristbjörg Jónasdóttir eru komin heim til Íslands. Hjónin ætla að verja sumrinu á Íslandi ásamt sonum sínum þremur en þau eru búsett í Katar. 

„Við komumst örugg heim eftir 20 tíma ferðalag og aðeins þriggja tíma svefn. Þetta gekk mun betur en við bjuggumst við,“ skrifaði Kristbjörg í sögu á Instagram. Vinir fjölskyldunnar voru með þeim í för sem gerði ferðalagið töluvert skemmtilegra. Hún segir krefjandi að ferðast með þrjú börn, sérstaklega á tímum kórónuveirunnar. 

Yngsti sonur Arons og Kristbjargar kom í heiminn í október. Vegna ferðatakmarkana í heimsfaraldrinum er móðir Arons sú eina í fjölskyldunni sem hefur hitt drenginn. Sumarfríið er greinilega kærkomið en fjölskyldan er þó ekki að flytja heim eins og margir hafa velt fyrir sér.

„Við ætlum loksins að verja tíma saman á Íslandi öll saman þar sem Aron er í fríi. Hann hefur  ekki fengið frí frá fótbolta í tvö ár núna svo það er nauðsynlegt fyrir hann að hlaða batteríin. Við erum svo spennt fyrir því verja tíma með ástvinum, vinna, ferðast og bara slaka á.“

mbl.is