Athafnakonan Birgitta Líf Björnsdóttir hélt lítið einkasamkvæmi á skemmtistaðnum B5 í gærkvöldi. Var þetta eitt fyrsta einkapartíið sem haldið er á skemmtistaðnum sem Birgitta ætlar að endurreisa í sumar. Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir dómsmálaráðherra var á meðal gesta og ræddi þar við ungt fólk um pólitíkina.
Áslaug sækist eftir fyrsta sæti á lista Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík en prófkjörið fer fram 4. og 5. júní.
Birgitta deildi myndbandi af partíinu á Instagram í gærkvöldi og endurbirti Áslaug það hjá sér og skrifaði við: „Gaman að fá boð að hitta ungt fólk og ræða pólitíkina.“
B5 við Bankastræti 5 í miðborg Reykjavíkur hefur verið einn vinsælasti skemmtistaður landsins undanfarin ár. Vegna heimsfaraldursins var honum lokað á síðasta ári og hefur ekki verið opnaður aftur. Greint var frá því í byrjun mánaðar að Birgitta Líf væri komin með lyklana að staðnum og stefndi að því að opna hann í sumar.