Leikarinn Ben Affleck sást með gamalt úr á sunnudaginn sem aðdáendur hans kannast vel við. Fyrrverandi unnusta hans, leik- og söngkonan Jennifer Lopez, er sögð hafa gefið honum það þegar þau voru saman í upphafi aldarinnar. Fyrrverandi parið er sagt vera að rifja upp gömul kynni þessar vikurnar.
Affleck kom fram í tónlistarmyndbandi Lopez við lagið Jenny From The Block. Þar var samband þeirra í aðalhlutverki en hún sást meðal annars kaupa úr handa Affleck í myndbandinu. Er talið að Affleck sé aftur byrjaður að nota þetta sama úr.
Affleck og Lopez voru saman í Miami í Bandaríkjunum á sunnudaginn þegar Affleck sást með úrið gamla að því er fram kemur á vef ET. Ýtir það undir þann orðróm að parið eigi í ástarsambandi. Á mánudaginn sáust þau svo fara í ræktina saman.
Úrið er ekki eini skartgripurinn frá því að parið var trúlofað. Skemmst er að minnast bleika demantshringsins sem Affleck bað Lopez með.