Kelly Osbourne, sem er hvað þekktust fyrir að hafa verið í raunveruleikaþáttunum The Osbournes, segist ekki hafa farið í meiriháttar lýtaaðgerð. Osbourne birti mynd af sér á samfélagsmiðlum sem mörgum finnst ólík henni.
„Mig langar bara að tala um efni sem þið hafið mörg verið að velta fyrir ykkur, af því ég er alltaf mjög heiðarleg og kem hreint til dyranna um það sem ég hef gert við líkama minn, og ég er sú sem ég er, og ég hef ekki farið í lýtaaðgerð,“ sagði Obsourne í myndbandi á Instagram.
Osbourne sagðist aldrei hafa farið í meiriháttar aðgerð á andlitinu, aðeins fengið sér smá fyllingu í varir, kjálkann og í ennið.
Osbourne hefur, eins og hún segir, verið mjög opin á samfélagsmiðlum og í fjölmiðlum. Nýlega opnaði sig hún um það að hún hefði fallið og byrjað að drekka áfengi aftur. Á síðasta ári opnaði hún sig einnig um að hún hefði farið í magaermaraðgerð til að hjálpa sér að grennast.